Í dag kl. 16 verður opnuð sýning Ágústu Arnardóttur vöruhönnuðar, Lanólín, í anddyri Ullarvinnslunnar í Þingborg í Flóahreppi.
Lanólín var unnið sem lokaverkefni í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands síðastliðið vor. Markmiðið var að benda á þá fjölbreyttu möguleika sem leynast í íslensku hráefni.
Lanólín er fita í ull kindarinnar. Fitan hrindir frá sér vatni og verkindina fyrir veðri og vindum. Í gegnum aldirnar lærði maðurinn að nýta sér efnið í sama tilgangi. Við það að halda lanólíninu eftir heldur ullin mörgum góðum eiginleikum . Hún er mýkri, andar vel, hrindir frá sér vatni og er sjálfhreinsandi auk þess sem lanólín er græðandi og gefur húðinni raka.
Nýtingarmöguleikar lanólíns eru fjölmargir en hér á landi er efnið nánast ekkert nýtt.
Hér er um einstaklega spennandi og athyglisverða sýningu að ræða fyir þá sem áhuga hafa á sauðkindinni og mögulegum afurðum hennar.
Sjón er sögu ríkari, allir eru velkomnir á sýningaropnunina í dag en sýningin stendur síðan fram í desember.
Sýningin verður opin á opnunartíma verslunarinnar í Þingborg; fimmtudaga kl. 11-17, föstudaga kl. 11-16 og laugardaga kl. 12-15.