Í dag kl. 15 ræði Ólafur Gíslason listfræðingur við gesti um sýningarnar tvær sem nú fer senn að ljúka í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Undir yfirheitinu Hliðstæður og andstæður, kallast sýningarnar Rósa Gísladóttir – skúlptúr og Samstíga – abstraktlist á bæði í tíma og rúmi. Í verkunum birtist flatarmálsfræðin, samhverfan og listsögulegar hugmyndir bæði hliðstæðar og andstæðar í inntaki og formi. Það gefur tilefni til umræðu sem m.a. endurspeglar samfélagslega stöðu lista á mismunandi tímum og hvernig hún er samofin pólitískum væringum, spennu, tækniframförum og heimspekilegum pælingum.
Verk Rósu hafa sterka tilvísun í klassíska hefð um leið og þau eru nútímaleg og vísa í hversdagsleikann. Sýningin Samstíga-abstraktlist veitir innsýn í þróun abstraktlistar í víðu samhengi og er samstarfsverkefni með Listasafni Íslands og Listasafni Hornafjarðar.
Ólafur Gíslason er listfræðingur, kennari, fararstjóri og rithöfundur og hefur einnig starfað sem listgagnrýnandi. Hann þekkir vel þau minni sem verk beggja sýninganna fela í sér. Ólafur var einn af SÚMurunum, samstarfs og sýningarvettvangi listamanna, sem kynntu nýjar leiðir í listsköpun upp úr 1965, sumpart sem andsvar við abstraktlistinni sem ríkt hafði áður. Hann hefur líka fylgst með listsköpun Rósu í nokkurn tíma og sem fararstjóri bæði í Grikklandi og á Ítalíu þekkir hann vel hinn klassíska heim Forn- Grikkja og Rómverja sem verk hennar vísa til. Ólafur mun fjalla um stóru spurningarnar sem verk beggja sýninganna ná að vekja um stöðu listarinnar, tækninnar og siðmenningu.
Listasafn Árnesinga býður gesti velkomna til þessarar samræðu þar sem Ólafur mun glæða hversdagslegar vangaveltur heimspekilegu ívafi.