Hvíldu, hjarta, hvíldu er yfirskrift næstu tónleika í tónleikaröðinni Englar og menn í Strandarkirkju sunnudaginn 25. júlí kl. 14:00.
Á tónleikunum kemur fram Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, betur þekkt sem Lay Low en yfirskrift tónleikanna er ljóðlína úr ljóðinu Aftansöngur eftir Huldu sem verður flutt á tónleikunum. Með Lay Low til halds og trausts eru Agnes Erna Estherardóttir og Anna Margrét Hraundal.
Lovísa hefur komið víða að og verið áberandi í íslensku tónlistarlífi frá því hún kom út með sína fyrstu plötu árið 2006. Agnes er útskrifuð úr Jazzsöngdeild FÍH og Anna Magga (Kolrassa Krókríðandi og Bellatrix) er útskrifuð úr klassískum gítarleik frá Tónskóla Sigursveins.
Flest lögin sem verða spiluð eiga það sameiginlegt að vera samin af konum. Það má því segja að þetta verða tónleikar þar sem kvennröddin og sköpunarflæði fær að fljóta og njóta sín. Lay Low gaf út plötuna Brostinn strengur árið 2011 þar sem hún samdi lög við ljóð eftir aðrar konur. Tilraunakenndur og dreymandi hljóðheimurinn sem varð til á þeirri plötu fékk lof gagnrýnenda þegar hún kom út. Þær ætla að flytja mikið af þessum lögum í bland við önnur lög eftir aðrar konur.
Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 3.000 en tónlistarhátíðin er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís og Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr Björg Þórhallsdóttir.
Næstu tónleikar í tónleikaröðinni:
Sunnudagur 8. ágúst kl. 14
Í sjöunda himni
Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzósópran
Bjarni Thor Kristinsson bassi
Helga Bryndís Magnúsdóttir píanó / harmóníum
Sunnudagur 15. ágúst kl. 14
Til Maríu
Lokatónleikar og guðsþjónusta á Maríumessu
Björg Þórhallsdóttir sópran
Elísabet Waage harpa
Hilmar Örn Agnarsson harmóníum
Prestur sr. Ninna Sif Svavarsdóttir