Leiðsögn og sýningarspjall verður með Ingu Jónsdóttur safnstjóra um sýninguna Að þekkjast þekkinguna í Listasafni Árnesinga kl. 15 í dag.
Að þekkjast þekkinguna er sýning fimmtán samtímalistamanna sem allir takast á við samtímaviðfangsefni og varpa ljósi á tengsl þekkingar og myndlistar. Listamennirnir nálgast viðfangsefnið á margslungna vegu og verkin fjalla í senn um miðlun þekkingar og aðgengi að henni, aðferðafræði myndlistarmannsins við þekkingarsköpun sem og eðli og mismunandi tegundir þekkingar í samfélaginu. Inga mun ræða um verkin og hvetja til gesti til samræðu um þau.
Listamennirnir sem verk eiga á sýningunni eru Anna Líndal, Birta Guðjónsdóttir, Einar Garibaldi Eiríkssson, Huginn Þór Arason, Hugsteypan, en það er heiti listatvíeykisins Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdís Jóhannesdóttur, Jeannette Castioni, Karlotta Blöndal, Olga Bergmann, Ólafur Sveinn Gíslason, Ósk Vilhjálmsdóttir, Pétur Örn Friðriksson, Sara Björnsdóttir, Sirra Sigrún og Unnar Örn. Sýningarstjórar eru Ingirafn Steinarsson og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir og á sýningunni eru ýmist eldri verk sett í nýtt samhengi eða ný verk unnin sérstaklega í tilefni hennar. Saman mynda þau áhugavert innlegg í orðræðuna um þekkingu og samtímamyndlist. Sýningartíminn hefur verið framlengdur til 18. júlí.
Það er margt að sækja heim í Hveragerði í dag því fyrir utan þá frjósemi og þekkingu sem finna má á sýningunni í listasafninu þá bjóða Hvergerðingar til blóma – og garðyrkjusýningarinnar Blóm í bæ um helgina.
Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18. Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.