Í dag er síðasti sýningardagur sýninganna Hliðstæður og Andstæður í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Kl. 15 í dag verður leiðsögn og leikur á safninu með Björgu Erlingsdóttur.
Björg er einn þriggja sýningarstjóra sýningarinnar Samstíga-abstraktlist ásamt Sigríði Melrós Ólafsdóttur deildarstjóra sýningadeildar Listasafns Íslands og Ingu Jónsdóttur safnstjóra Listasafns Árnesinga.
Í leiðsögninni mun Björg fjalla um tíðaranda tímans sem sýningin Samstíga-abstraktlist vísar til og ræða hvernig listin mótast af og mótar samfélagið.
Gestir eru hvattir til þess að taka þátt í samræðunni og börn á öllum aldri geta brugðið sér í leik.
Markmið sýningarinnar er að veita innsýn í heim íslenskrar abstraktlistar um miðbik síðustu aldar og benda á tengsl við erlenda strauma.
Á sýningunni um skúlptúra Rósu Gísladóttur má sjá hvernig form og hugmyndir beggja sýninganna kallast á bæði hliðstæðar og andstæðar.
Björg er þjóð- og safnafræðingur að mennt og starfaði við safnadeild Listasafns Reykjavíkur 2002-2006 og sem forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar 2006-2013 en er nú sjálfstætt starfandi sérfræðingur.
Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.