Kl. 15 í dag verður leiðsögn og samræður með Ingu Jónsdóttur safnstjóra um sýninguna Þjóðleg fagurfræði í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Sýningin Þjóðleg fagurfræði er tilraun til að skoða hvernig þjóðleg fagurfræði birtist í verkum tólf listamanna tvennra tíma. Listamennirnir eru Ásgrímur Jónsson, Gísli Jónsson, Jóhannes Kjarval, Halldór Einarsson, Kristinn Pétursson, Bjarni H. Þórarinsson, Birgir Andrésson, Guðjón Ketilsson, Hulda Hákon, Daníel Þ Magnússon, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Ólöf Nordal.
Eldri listamennirnir eru fæddir á tuttugu ára tímabili undir lok 19. aldar og verk þeirra vísa í þjóðernisrómantík og sjálfstæðisbaráttu. Yngri listamennirnir, sem fæddir eru um miðbik síðustu aldar vinna í anda póstmódernismans. Þeir beita flestir frjórri tilvísun í alþýðlegan menningararf, ýmist á hnyttin og/eða beittan hátt. Verkin á sýningunni eru mörg úr safneign Listasafns Árnesinga en einnig eru verk fengin að að láni frá Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur og úr einkaeign.
Aðgangur er ókeypis. Í safninu er notaleg kaffistofa með leskró þar sem hægt er að skoða ýmis rit um myndlist. Einnig er þar leikkró með skapandi kubbum fyrir börn á ýmsum aldri.
Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18.