Í dag kl. 15 verður leiðsögn um skúlptúra Rósu Gísladóttur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Rósa Gísladóttir er athyglisverður listamaður sem í verkum sínum veltir vöngum yfir stöðu listarinnar á mismunandi tímum.
Í dag mun Rósa segja frá tilurð verkanna sem nú eru til sýnis í Listasafni Árnesinga og tækifæri gefst til þess að spyrja frekar, en stóru verkin hennar voru sérstaklega unnin fyrir sýningu sem sett var upp í hinu virta safni, Mercati di Traiano, í Róm sumarið 2012.
Verk hennar hafa sterka tilvísun í klassíska hefð um leið og þau eru nútímaleg og tengjast hversdagsleikanum.
Á sýningunni í Listasafni Árnesinga eru verk hennar sett upp eins og tvær kyrralífsmyndir af ólíkri stærðargráðu. Sú minni sem er frá árinu 1999, endurspeglar kyrralífsmálverk en í stóra salnum hefur nýjustu verkum Rósu verið stillt upp á sama hátt en þar eru stærðarhlutföllin slík að það er sem gesturinn gangi inn í verkið.