Leikárið hafið á Selfossi

Nú er haustið gengið í garð og þá hefur Leikfélag Selfoss upp raust sína og starf félagsins fer á fullt.

Þann 15. september hélt félagið opinn félagsfund í Litla leikhúsinu við Sigtún þar sem dagskrá vetrarins var kynnt öllum þeim er heyra vildu. Þar bar hæst stóra verkefni vetrarins sem mun hefja göngu sína í byrjun janúar. Leikstjóri verður Gunnar Björn Guðmundsson sem m.a. leikstýrði síðasta áramótaskaupi, kvikmyndunum Gauragangi og Astrópíu auk fjölda annarra verkefna. Verkið verður unnið í spuna og er leikfélagið mjög stolt og spennt að fá Gunnar Björn til starfa í þetta áhugaverða verkefni.

Einnig var kynnt Októberhátíð, eins konar árshátíð félagsins, Hugarflug sem er stuttverkadagskrá og haldin verður í lok október. Nokkrir fastir liðir verða líka á dagskrá eins og laugardagskaffi sem verður flesta laugardaga í vetur, jóladagskrá í desember og skemmtileg heimsókn frá leikfélagi eldri borgara, Snúði og Snældu í byrjun október.

Það verður því nóg um að vera fyrir alla sem hafa áhuga á að vera með eða njóta leiklistar í vetur. Hægt er að kynna sér alla þessa viðburði nánar á heimasíðu leikfélagsins, www.leikfelagselfoss.is.

Fyrri greinVertíðin hefst í kvöld
Næsta greinSameiningarhugmyndir á Suðurlandi