Hið nýstofnaða Leikfélag Eyrarbakka stendur fyrir leiklistarnámskeiði um helgina, dagana 9. og 10. september kl. 10 til 14 báða dagana.
Hulda Ólafsdóttir sér um námskeiði en hún er þaulreyndur kennari og hefur haldið ótal námskeið í leikrænni tjáningu fyrir alla aldurshópa.
Á námskeiðinu verður reynt að koma sem flestu að sem varðar leiklistina, þótt ljóst sé að allt verði það í mýflugumynd. Þetta námskeið er ekki síst mikilvægt til að mynda hóp sem kynnist, losar um hömlur, ögrar sér, hlær, snertist og leikur sér saman. Þá kemur væntanlega líka í ljós hverjir hafa hugsað sér að vinna áfram með félaginu að uppsetningu leikfélagsins sem framundan er í haust.
Námskeiðið verður haldið helgina í sal Byggðasafnsins við Búðarstíg 22, Eyrarbakka. Námskeiðið er í boði leikfélagsins og Byggðasafnið lánar salinn.