Leikfélag Selfoss æfir Bangsímon

Það er heldur betur líf og fjör í Litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi þessa dagana því hafnar eru æfingar á leikritinu Bangsímon eftir Peter Snickars í leikstjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur.

Með þessari uppsetningu er brotið blað í sögu leikfélagsins því þetta er í fyrsta sinn sem verk er endursýnt hjá LS. Bangsímon var fyrst settur upp hjá leikfélaginu fyrir tuttugu árum og ekki er ólíklegt að börnin sem sáu þá uppsetningu hafi gaman af því að kynna eigin börn fyrir Bangsímon gamla og vinum hans. Í tilefni af tuttugu ára afmælinu munu nokkrir af gömlu búningunum vera til sýnis í leikhúsinu meðan á sýningum stendur.

Alls taka sjö leikarar þátt í sýningunni ásamt baktjaldafólki af ýmsum toga, s.s. sminkum, búningahönnuðum og sviðsmyndasmiðum. Stefnt er á frumsýningu í lok október og verða sýningar átta talsins.

Sögurnar um Bangsímon og félaga þekkja flestir enda eru þær að verða níutíu ára og eiga engu síður við í dag en þegar þær voru skrifaðar. Þetta eru hugljúfar og fallegar sögur um vináttu, hugrekki og samstöðu. Bangsímon er skemmtilegt verk fyrir alla fjölskylduna og við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Fyrri greinSkálaði í Coke við eigandann
Næsta greinGuðmunda aftur inn í landsliðshópinn