Leikfélag Selfoss hefur hafið æfingar á harmleiknum Maríusögur eftir Þorvald Þorsteinsson. Leikstjóri er Guðfinna Gunnarsdóttir og eru leikararnir fimm talsins.
Leikritið gerist á (æsku)heimili Stefaníu, hugulsömu húsmóðurinnar, og Þráins, eiginmanns hennar. Tilefnið er fráfall föður Stefaníu. Marteinn bróðir hennar er þar mættur, eftir margra ára dvöl í Svíþjóð, og er alls ekki kátur þegar María, æskuvinkona þeirra systkina, kemur í heimsókn með nýjasta kærastann.
Stefanía gerir allt hvað hún getur til að halda umræðunum frá því sem ekki má ræða en hættulegt leyndarmálið kemur að lokum upp á yfirborðið og María fær loks tækifæri til að gera upp syndir fortíðarinnar, eða svo heldur hún…
Frumsýnt verður 25. október í Litla leikhúsinu við Sigtún.