Leikfélag Selfoss hefur verið að ferðast með leik- og gangverkið „Ég held ég gangi heim – Ævintýri á gönguför“ um þrjár dagleiðir frá Reykjum í Mosfellsbæ og þaðan um fjöll og firnindi að rótum Ingólfsfjalls við gróðrastöðina Nátthaga.
Nú er einungis lokaþáttur verksins eftir, sem fer fram 1. september næstkomandi, en það er dagleiðin frá gróðrastöðinni Nátthaga, gengið yfir Ingólfsfjall með viðkomu á Inghól og sem leið liggur og niður gönguleiðina við Þórustaðanámur og svo gamla þjóðveginn undir Ingólfsfjalli heim í Litla leikhúsið við Sigtún.
Aðalpersónurnar í þessu verki eru nýgift hjón, þau Björk og Reynir, útileikarar af höfuðborgarsvæðinu sem hafa átt sér þann draum heitastan að flytja út á land, finna sér byggðarlag sem skartar fljóti, fjalli og fögru mjólkurbúi og ætla að stofna þar útileikhús í fögrum garði við fljótið.
Þetta ferðalag er þeirra brúðkaupsferð og mun henni ljúka með veglegri brúðkaupsveizlu í lok ferðar þann 1. september í Litla leikhúsinu við Sigtún og vilja þau bjóða öllum sem komið hafa að og fylgt þeim um stuttan veg og langan að gleðjast með sér.
Þetta er einstakt tækifæri fyrir Selfyssinga og nágranna þeirra til að taka vel á móti þessum nýju íbúum Árnessýslu og fylgja þeim síðasta spölinn heim, því það fara engar sagnir af íbúum, á þessari öld og kannski ekki þeirri síðustu heldur, sem hafa lagt jafn hart að sér að koma til að búa hér með okkur.
Fyrir þá sem ekki hentar að fara yfir Ingólfsfjallið, er upplagt að hitta okkur við Þórustaðanámurnar og fylgja okkur þaðan niður í Litla leikhúsið, eða við Arnberg og svo má bara koma og taka á móti okkur við Litla leikhúsið við Sigtún.
Allir eru hjartanlega velkomnir í brúðkaupsveizlu þeirra Bjarkar og Reynis, og njótum í góðum félagskap lokasenu þessa leikverks.
Þessi ferð er farin í tilefni að 60 ára afmæli Leikfélags Selfoss, og hugsuð til að styrkja andann jafnt og fjárhag félagsins, frjáls framlög væru því vel þegin.
Tímasetningar:
Lagt af stað með rútu frá Litla leikhúsinu við Sigtún kl. 9:00
Gengið af stað frá Nátthaga kl. 9:30
Gönguferð Nátthagi – Þórustaðanámur, 5 tímar og 45 mínútur. Áætluð koma í Þórustaðanámu kl. 15:15.
Þórustaðarnáma – Arnberg, 45 mínútur, áætluð koma kl. 16:00.
Arnberg – Litla leikhúsið, 30 mínútur, áætluð koma kl. 16:30.