Leikfélag Selfoss er á leiðinni til Danmerkur í næstu viku en þar mun félagið taka þátt í leiklistarhátíðinni NoBa dagana 4.–10. júlí í Thisted á Jótlandi.
NoBa er nýleg og mjög spennandi hátíð áhugaleikfélaga úr smábæjum í Norður-Evrópu.
Sýningin sem Leikfélag Selfoss fer með á hátíðina heitir Kjánar og kynlegir kvistir og er skemmtileg blanda þjóðsagna og þjóðsagnapersóna úr hinum íslenska menningararfi. Sýningin er í raun fjögur stuttverk sem öll hafa verið sett upp hjá leikfélaginu síðustu ár en er nú skeytt saman í eina sýningu.
Verkin sem um ræðir eru Bakkabræður og Leitin að Stúfi eftir Don Ellione og Djákninn á Myrká eftir Guðný Láru Gunnarsdóttir og Stefán Örn Viðarsson en þau eru öll félagar í Leikfélagi Selfoss. Einnig er verkið Gilitrutt eftir Þórunni Guðmundsdóttur í sýningunni.
Leikfélag Selfoss mun sýna þrjár fjáröflunarsýningar á verkinu í Litla leikhúsinu við Sigtún til að safna í ferðasjóð fyrir utanlandsferðinni. Frumsýning verður föstudaginn 26. júní en einnig verður sýnt 27. júní og 2. júlí en sýnt er í Litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi.
Leikhópurinn lætur ekki þar við sitja enda mikið hæfileikafólk. Haldnir verða tveir fjáröflunartónleikar, þeir fyrri 27. júní í Litla leikhúsinu við Sigtún og þeir seinni á Café Rósenberg í Reykjavík 30. júní. Nánar er hægt að fræðast um sýninguna á fésbókarsíðunni Kjánar og kynlegir kvistir og á heimasíðu leikfélagsins.
Miðaverða á leiksýningar er 1000 kr., miðaverða á tónleika er 1500 kr. Engar miðapantanir, bara að mæta. Hægt er að fá afslátt, ein leiksýning og tónleikar fyrir 2.000 kr. Svo er ekkert sem bannar fólki að borga meira til að hjálpa félaginu enn frekar í fjáröfluninni.