Það er alþekkt að mannsálum svipar mjög saman í Súdan og Grímsnesi.
Hitt er dags daglega fjarlægara okkur og um margt ósennilegra að það sé algerlega samskonar manneskja og sömu sálarkrísurnar nú og voru meðal okkar fyrir 50 árum.
Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarsonar dregur þetta þó fram en þar er brugðið á leik í hæfilegri blöndu af revíuverki, farsa og vandamálastykki sem gerist á Íslandi 1961. Fyrstu korterin á frumsýningu Leikfélags Selfoss brutust þær hugsanir í áhorfanda að þó þetta væri svosem nógu skemmtilegt þá ætti verkið sáralítið erindi til okkar í dag. Tóm forneskja þar sem glímt væri við vandamálin undir harla úreltu sjónarhorni. Eða eru ekki örugglega af þeir tímar að eiginkonunni sé aðeins ætlað að sitja stillt og prúð heima og bíða húsbóndans?
En galdur Ólafs Hauks er einmitt að færa okkur aftur á þennan tíma þannig að tekið sé eftir. Í framhaldinu byggir hann upp grátbroslegt fjölskyldudrama þar sem hin raunverulegu viðfangsefni stórfjölskyldunnar eru okkur kunnugleg.
Olnbogabarnið, konan sem er buffuð af getulausum eiginmanni, heimspekilegi afinn sem ekki kann að hlusta og hégómlegi orðuhafinn sem er hræddur við lífið. Umfram allt ástin, draumurinn og síðan fálmkennd gagnrýni á stéttarskiptinguna sem enginn fótar sig almennilega í, ekki frekar en í okkar eigin samtíma.
Tónlistin er svo annar kafli þessa verks sem einn og sér nægir til að gera það eftirminnilegt og hluta af menningarsögu þjóðar, en í sýningunni eru flutt vinsæl íslensk dægurlög frá sjötta og sjöunda áratugnum. En einnig klassísk karlakóralög sem og íslensk sönglög. Söngatriði þessi takast mjög vel, þó hópsöngsatriðin standi þar uppúr. Má þar t.d. nefna þvottasenuna sem var einkar lifandi og skemmtileg. Hljómsveitin kemst líka vel frá sínu, en hún hefði alveg mátt sjást öll á sviðinu. Það hefði gert senurnar ennþá skemmtilegri.
Leikararnir eru hver öðrum betri. Margir eru hér í kunnuglegum gervum eins og þeir meistarar Sigurgeir Hilmar, Don Ellione frá Birnustöðum og Bjarni í Túni. Þetta eru sterkir týpuleikarar sem verða kunnuglegir á sviðinu og smellpassa í hlutverkin.
Guðmundur Karl, Sigrún Sighvatsdóttir (formaður Leikfélagsins), Rakel Ýr, Gunnhildur, Viktor Ingi, Kolbrún Lilja, Sigríður frá Vigur og Erla Dan eru allt leikarar sem hafa orðið talsverða reynslu hjá LS og búa að henni í þessu verki þar sem þau skila sínu afar vel en öll fara með nokkuð stór hlutverk.
Nýliðinn Ármann Ingunnarson leikur eitt aðalhlutverkið. Hann er ungur karl í svolítið óvanalegum ástarþríhyrningi og fer vel með það. Í revíuleikverki eins og þessu hefði maður búist við meiri tilþrifum en þegar upp er staðið er þessi látlausi leikur hlutverksins til þess fallinn að gera persónuna og verkið allt trúverðugt.
Sex aðrir leikarar koma hér við sögu í smærri hlutverkum og skila sínu vel en eru ekki nefndir hér sérstaklega, ekki frekar en sá stóri hópur baksviðsmanna sem að verkinu kemur. En þau öll fá ásamt stjörnum verksins og leikstjóra bestu þakkir fyrir góða skemmtun.
Elín og Bjarni
Leikfélag Selfoss sýnir Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leikstjóri: Lilja Nótt Þórarinsdóttir. Tónlistarstjórar: Magnús Kjartan Eyjólfsson og Guðmundur Eiríksson. Frumsýnt í leikhúsinu við Sigtún 18. janúar 2013