Sannleikurinn er alltaf sagna bestur. Eða hvað? Hvað er sannleikur og hvar liggja mörkin milli sannleiks og uppspuna?
Þessu veltir áhorfandinn óhjákvæmlega fyrir sér í litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi þar sem Leikfélag Selfoss sýnir um þessar mundir Maríusögur eftir Þorvald Þorsteinsson. Leikstjóri verksins er Guðfinna Gunnarsdóttir en þetta er í fyrsta skipti sem hún leikstýrir fyrir Leikfélag Selfoss.
Leikritið gerist á (æsku)heimili Stefaníu og Þráins, eiginmanns hennar, en tilefnið er fráfall föður Stefaníu. Marteinn bróðir hennar er mættur eftir tíu ára dvöl í Svíþjóð og er alls ekki kátur þegar María æskuvinkona þeirra systkina kemur í heimsókn ásamt nýjasta kærastanum. Stefanía gerir allt hvað hún getur til að halda umræðunni frá því sem ekki má ræða en smám saman afhjúpast gömul leyndarmál, eitt af öðru.
Í fyrstu má ætla að hér sé á ferðinni hádramatískt leikrit en svo er ekki. Vissulega svífur dramatíkin yfir vötnum en þar fyrir ofan flýtur gamansemin. Maður stóð sig að því í tilfinningaþrungnum senum að vita ekki hvort maður ætti að hlæja eða gráta. En þannig er það líka í raunveruleikanum að það er oft stutt milli hláturs og gráturs. Innihaldslaus samtölin framan af eru líka ádeila á klisjur og yfirborðsmennsku í mannlegum samskiptum.
Verkið er ákaflega vel skrifað og samtölin eru í senn eðlileg og áreynslulaus. Þvílíkur gullmoli sem þetta verk er og verður að hrósa Leikfélagi Selfoss fyrir að setja þennan týnda demant á svið.
Steríótýpurnar eru áberandi í verkinu. Stefanía, sem leikin er af Írisi Árnýju Magnúsdóttur, er hin umhyggjusama húsmóðir sem vill hafa alla góða, halda friðinn og passa að allt sé fínt og flott á yfirborðinu. Þráinn eiginmaður hennar, sem leikinn er af Hafþóri Agnari Unnarssyni, er hinn stuðningsríki eiginmaður sem vill allt gera fyrir eiginkonu sína, tilbiður hana og dáir og setur þarfir hennar alltaf í fyrsta sæti. Marteinn, sem er leikinn er af Ármanni Ingunnarsyni, er hinn fýldi, ósjálfbjarga karlmaður sem finnst best að taka sem minnsta ábyrgð á sínu eigin lífi. María, sem leikin er af Sigríði Hafsteinsdóttur, er hin óheflaða kona sem nýtur þess að ganga fram af fólk með sínu ýkta kyngervi. Eggert, sem leikinn er af Viktori Inga Jónssyni, er karlmaðurinn sem þekkir alla, veit allt og er bestur í öllu.
Allir þessir leikarar skiluðu sínu hlutverki vel og á Guðfinna mikið hrós skilið fyrir að laða fram það besta hjá þessum flotta leikarahóp. Einn leikari stelur þó algjörlega senunni, það er Hafþór Agnar sem fór gjörsamlega á kostum í hlutverki Þráins. Það er hreint ótrúlegt að hér sé á ferðinni óreyndur leikari með öllu. Hafþór Agnar kemur textanum vel til skila, heldur vel utan um orðin og er með sérlega góða líkamstjáningu. Vonandi eigum við eftir að sjá meira af honum í framtíðinni.
Umgjörð sýningarinnar er öll góð en vert er að hrósa sviðsmyndinni sérstaklega. Hún er einföld og stílhrein og sviðið er líka nýtt á skemmtilegan hátt með aðstoð ljóss og skugga. Búningarnir eru látlausir og smekklegir og tónlistarnotkun og tónlistarval kemur vel út.
Enn einu sinni hefur Leikfélagi Selfoss tekist að setja upp metnaðarfulla sýningu í litla leikhúsinu við Sigtún. Maríusögur sýna vel að uppsetningar þurfa ekki að vera íburðarmiklar til þess að koma við áhorfendur. Þetta er sýning sem enginn leikhúsunnandi má láta framhjá sér fara.
Jóhanna S. Hannesdóttir