Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða, stendur Bókasafnsdeginum í dag, í samvinnu við bókasöfn landsins og er markmiðið að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu.
Dagsetningin var valin í tengslum við alþjóðlegan dag læsis, sem er 8. september. Í tilefni dagsins verður birtur listi yfir vinsælustu handbækur starfsfólks á bókasöfnum.
Bókasafnið í Hveragerði tekur þátt í Bókasafnsdeginum með eftirfarandi dagskrá:
Um morguninn er 9. og 10. bekkingum Grunnskólans í Hveragerði boðið í heimsókn, þeim kynntur safnkosturinn og leitarvefurinn leitir.is.
Eftir hádegið er boðið upp á bókaplöstun. Hægt er að koma með bók að heiman og plasta sjálfur með leiðsögn eða fá bókina plastaða fyrir sig gegn vægu gjaldi. Kl. 16:30 verður kynning á leitir.is fyrir alla áhugasama.
Nú eru síðustu dagar bókamarkaðarins sem hófst á Blómstrandi dögum. Enn er verið að bæta við bókum – á spottprís. Hægt er að vinna sér inn bók með því að lesa upp úr henni stuttan kafla.
Ýmislegt er hægt að skoða á safninu annað en bækur því þar er nú sýning á munum úr eigu Kristjáns frá Djúpalæk sem bjó í Hveragerði 1950-´61 og var einn af „Hveragerðisskáldunum“. Einnig er í safninu sýning á ýmsu sem fundist hefur í gömlum bókum, bæði í safnkosti og gjafabókum. Kannski finnur einhver gamla bókamerkið sitt þar.
Loks má geta þess að nú fer hver að verða síðastur að sjá myndlistarsýningu Hallveigar Kristínar Eiríksdóttur sem vakið hefur heilmikla athygli fyrir skemmtilega samvinnu rithöfundar og myndlistarmanns. Hallveig kemur einmitt í heimsókn á bókasafnsdaginn kl. 18:00 og spjallar um sýninguna, sögurnar og hvað hún er að gera um þessar mundir.