Líf og fjör í Ljósafossstöð um Verslunarmannahelgina

Í tilefni af 100 ára afmæli skátastarfs á Íslandi tóku skátar höndum saman við Landsvirkjun og settu upp glæsilega sýningu í Ljósafossstöð í vor sem ber yfirskriftina „UNDRALAND – minningar frá Úlfljótsvatni“.

Aðsókn á sýninguna hefur farið fram úr björtustu vonum að sögn Guðmundar Pálssonar sýningarstjóra. „Sýningin er opin alla daga vikunnar frá kl. 10-16 og hafa á annað þúsund gestir sótt okkur heim síðan um miðjan júní“, segir Guðmundur og bætir við að sýningin sé ekki aðeins ætluð skátum heldur hafi hún verið sett upp með það að markmiði að gefa almenningi tækifæri til að upplifa með eigin augum og eyrum þá fjölbreyttu starfsemi sem fer fram á Úlfljótsvatni.

Á sýningunni gefur að líta mikið magn ljósmynda sem sýna starfið allt frá 1940 til dagsins í dag, auk þess sem í sérstökum bíósal eru sýndar upptökur frá Ríkissjónvarpinu frá ýmsum viðburðum á Úlfljótsvatni. Í öðrum sýningarsalnum er notaleg stofa þar sem gestir geta tyllt sér niður og flett í gömlum skátablöðum og –bókum og sett hefur verið upp tjaldbúð í fullri stærð sem sýnir á skemmtilegan hátt þann búnað sem skátar nota í sínu tjaldbúðalífi.

„Við eigum von á mörgum gestum um Verslunarmannahelgina enda mikið af ferðafólki á svæðinu og við ætlum af því tilefni að leggja okkur sérstaklega fram um að taka vel á móti gestum“ segir Guðmundur, sem er fullur tilhlökkunar fyrir komandi helgi. „Fulltrúar úr sýningarstjórninni verða sjálfir á staðnum til að leiða gesti um sýninguna, leikin verður tónlist af nýútkominni plötu Bræðrabandsins sem inniheldur gömlu góðu skátasöngvana og kynnt verður bókin „UNDRALAND – fyrstu árin“ sem kom út í tengslum við Landsmót skáta sem haldið var á Úlfljótsvatni og lauk um síðustu helgi“.

Aðspurður um þessa bók segir Guðmundur að við undirbúning sýningarinnar hafi sýningarstjórn safnað saman miklu og skemmtilegu efni og ekki hafi verið mögulegt að gera því öllu skil á sýningunni. „Við ákváðum því að skella okkur í bókaútgáfu samhliða sýningarverkefninu og gáfum út þessa bók í síðustu viku sem inniheldur viðtöl, greinar og ljósmyndir frá Úlfljótsvatni frá tímabilinu 1940-1960. Fyrsta upplag seldist nánast upp á landsmótinu en við erum komin með næsta skammt og munum kynna bókina fyrir gestum um helgina“.

Sem fyrr segir er sýningin opin alla daga frá kl. 10-17, aðgangur er ókeypis og að sjálfsögðu er heitt á könnunni fyrir alla gesti.

Fyrri greinLjósmynda-samkeppnin Sumar á Selfossi
Næsta greinGríðarlega mikilvæg stig í sarpinn