Á morgun, laugardaginn 14. ágúst, verður mikil hátíð á Sólheimum en þá er lokadagur á menningarhátíð Sólheima sem staðið hefur í allt sumar.
Kl. 14 mæta Ragnar Bjarnason og Þorgeir Ástvaldsson og verða með árlega gleði tónleika í Sólheimakirkju en tilhlökkun er mikil hjá íbúum Sólheima fyrir heimsókn þessara miklu höfðingja.
Markaðstorg hefur verið sett upp undir nafni Lífrænir dagar sem opnar kl. 12. Þar verða ferskar lífrænar afurðir frá gróðurhúsum, bakaríi og matvinnslu Sólheima boðnar gestum og gangandi. Frá skógræktarstöð Sólheima verða tilboð á plöntum og trjám sem eru lífrænt ræktuð á Sólheimum. Einnig verða munir frá vinnustofum Sólheima til sýnis og sölu.
Pacas og Beggi bjóða gestum uppá rétti unnum m.a. úr afurðum Sólheima með stemmningu og gleði sem þeim einum er lagið.
Skátafélag Sólheima verður til staðar og aðstoðar að skátasið.
Kaffihúsið, verslunin og listhúsið verður opið uppá gátt og verða óvæntar uppákomur á svæðinu allan daginn. Boðið verður uppá leiðsögn um Trjásafnið en þar eru gróðursettar um 50 mismunandi trjátegundir.
Lokadagar á sýningu á listmunum unnum af íbúum Sólheima verður um helgina og ljósmyndasýning þar sem saga Sólheima er gerð góð skil.
Íbúar Sólheima bjóða alla gesti hjartanlega velkomna á þennan síðasta laugardag Menningarveislu sumarsins.