„Lífræn músik með hlýjan analog hljóðheim“

Tómas Jónsson, ásamt syni sínum, Jónatan Knúti. Ljósmynd/Ása Berglind Hjálmarsdóttir

Þann 18. apríl næstkomandi kemur út ný sólóplata með píanóleikaranum Tómasi Jónssyni.

„Þetta er hljómplata þess eðlis að hún flokkast ekki undir neina stefnu held ég. Kannski að klárt tónlistarfræðifólk og spekúlantar gæti sett einhverja límmiða á músíkina,“ segir Tómas í samtali við sunnlenska.is.

„En þetta er instrumental músík, það er að segja ekki sungin tónlist. Nema einstaka „bakraddir“. Þetta er þó samin tónlist að mestu sem gerir hana að einhverju öðru en spunatónlist. Hún er mikið rafmögnuð og ég notast mikið við hljóðgervla frá árunum 1970 til 1984. Ég notast ýmist við hljómsveit með trommusetti, rafbassa og gítar ásamt öllum synthahaugnum eða prógrameraða trommuheila og annars háttar rafbúnað,“ segir Tómas.

„Músíkin er þó lífræn og með hlýjan analog hljóðheim. Ég vann hana líka mest alla í Hljóðrita, hljóðveri í Hafnarfirði, sem er annað hvort einskonar himnaríki eða sódóma analog græju maníaksins,“ segir Tómas sem er búsettur í menningarbænum Þorlákshöfn ásamt fjölskyldu sinni.

Unnið á kvöldin og á nóttunni
„Lögin samdi ég með eða án herkja jafnóðum í daglegu amstri yfir tveggja ára skeið. Það gekk mjög vel og hratt fyrir sig að vinna plötuna þegar ég og Guðmundur Kristinn Jónsson (Kiddi Hjálmur) og hvað þá aðrir tónlistarmenn gátum komið okkur saman um tíma. Kiddi tók plötuna upp með mér, mixaði og masteraði – og á fyrir vikið stóran þátt í því hvernig loka niðurstaða plötunnar er,“ segir Tómas.

„Stúdíóvinnan fór því oft fram á mjög afmörkuðum tímum, oft milli ellefu á kvöldin og tvö á nóttunni. Við gátum þó unnið á ógnarhraða þegar við byrjuðum því bæði hafði ég mjög sterka mynd af því í höfðinu hvað þurfti að gera og hvernig tónlistin ætti að hljóma og þá er Kiddi afspyrnu fær upptökumaður og snöggur. Svo hjálpaði það að við erum báðir óhræddir við að láta hluti standa og höfum gaman af dirfsku í hljóðblöndun til dæmis,“ bætir Tómas við.

„Þó ég eigi músíkina og hugmyndirnar um hvað ég vilji hafa hvar þá yrði það aldrei eins og það verður nema fyrir það stórkostlega fólk sem lagði sitt að mörkum. Þar má mögulega einna helst nefna Magnús Tryggvason Eliassen, Rögnvald Borgþórsson, Guðmund Óskar Guðmundsson, Kidda Hjálm og Ásgeir Trausta Einarsson.“

Hljómplötuþríleikur
„Þannig er mál með vexti að ég er að vinna að hljómplötuþríleik, trílogíu. Fyrsta platan mín ber heitið Tómas Jónsson, einmitt eins og ég sjálfur, og þessi heitir Tómas Jónsson 3. Hún er nefnilega númer þrjú í röðinni í þessum þríleik. Plata númer tvö kemur svo næst,“ segir Tómas.

„Það er klárlega rauður þráður í gegnum þessar plötur bæði í hljóðheim og lit lagasmíða að einhverju leyti. Mér finnst þær samt ólíkar. Því lögin eru ólík en öðrum gæti þótt þær líkar sökum persónueinkenna. Þær fara þó báðar í þennan óræða ramma. Reyndar er þessi aðeins meira skoppandi en hin. Fjörugri.“

Tómas segist fá innblástur víða. „Ég hlusta mjög mikið á tónlist. Allskonar tónlist. Ólíka tónlist. Maður dregur áhrif úr öllu því sem manni þykir gott eða nógu áhugavert fyrir eyrun til að sperrast. Svo er ég líka eiginlega alveg fáránlega lánsamur með að ég fæ að vinna með mörgum og margir sem ég vinn með eru mínir uppáhalds músíkantar og af öllum þeim sem maður vinnur með og fílar fær maður innblástur.“

Gefur út plötuna á afmælisdaginn sinn
Í ljósi COVID-19 og aðstæðna í þjóðfélaginu er óvíst hvenær útgáfutónleikarnir verða. „Ég verð aðeins að bíða með útgáfutónleika þangað til að fólki er óhætt að mæta á tónleika. Ekki nema að maður reyni streymistónleika. Ég var bara ekki búinn að hugsa það sem möguleika fyrr en ég er að svara þessari spurningu hérna,“ segir Tómas.

„Lucky Records gefa út plötuna og hún mun fást þar á vinyl frá og með 18. apríl. Fólk mun einnig geta nálgast hana á Bandcamp og Spotify,“ segir Tómas en þess má geta að hann á einmitt afmæli 18. apríl.

„Ég mæli sterklega með því fyrir þá sem langar að kaupa plötu að fara – þegar það má – í Lucky Records, ná sér í eintak og eitthvað annað í bland og halda þannig smá loga í plötubúðarrekstri sem stendur væntanlega hallandi fæti á þessum skrítnu veirufaraldstímum,“ segir Tómas að lokum.

Fyrri grein16,7 milljónir í menningarstarf á Suðurlandi
Næsta greinLið ML í 2. sæti í Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna