Í dag klukkan 14 opnar samsýningin Lífssögur í Listagjánni, sýningarrými Bókasafns Árborgar. Allir eru hjartanlega velkomnir en fólk er beðið um að hafa sóttvarnarreglur í huga.
Þau höfðu kynnst úti í Vínarborg og ruglað saman reitum, hann, íslenski stúdentinn frá Vestmannaeyjum og hún ljósmóðirinn frá Vínarborg. Nú hafði sú ákvörðun verið tekin að flytja frá Vínarborg og setjast að til framtíðar á Selfossi með þrjú börn í farteskinu og eitt á leiðinni. Á svipuðum tíma völdu hjónakorn nokkur, hún ofan af Flúðum og hann frá Selfossi, að hefja saman búskap í Smáratúni á Selfossi og jafnframt að byggja sér framtíðarheimili í Rauðholti 9.
Sviðið er Selfoss á árunum 1960-1970. Selfoss, bærinn við Ölfusárbrú, íbúafjöldinn árið 1930 taldi einungis 68 manns en um 1970 var talan kominn í 2.397. Margir höfðu flust á Selfoss úr sveitunum í kring en aðrir komu lengra að. Mjólkurbú Flóamanna og Kaupfélag Árnesinga voru á þessu tíma stórveldi með mikil umsvif og veittu íbúum þessa unga bæjarfélags sem var í örum vexti margvíslega atvinnu. Íbúarnir hjálpuðust að við að byggja húsin sín, börnin ráku burt kindur sem læðst höfðu í garðana, Ríkissjónvarpið tók sér sumarfrí allan júlímánuð, réttarfrí voru enn við lýði í skólum og verðbólgan var allsráðandi.
Sýningunni Lífssögur er ætlað að varpa örlítilli sýn í líf þessara tveggja fjölskyldna sem fluttu á Selfoss á tímabilinu 1960-1970. Á sýningunni má sjá veglega ljósmyndabók þar sem rakin er ættar- og lífssaga hjónanna Gísla Sigurðssonar kennara frá Vestmannaeyjum og Georginu Stefánsdóttur Sedlacek ljósmóður frá Vínarborg og einnig bókverk Helgu R. Einarsdóttur þar sem hún segir frá lífssögu sinni.
Báðar þessar fjölskyldur létu til sín taka í bæjarlífinu á Selfossi og settu svip sinn á mannlífið í þessum unga bæ.
Sýningin er opin á opnunartíma Bókasafns Árborgar og verður uppi til 31. júlí næstkomandi.