Búist er við fjölda erlendra og innlendra dansara á alþjóðlegu Lindy hop danshátíðina „Lindy on Ice“ sem haldin verður í fyrsta skipti á Flúðum og í Reykjavík um næstu helgi. Hátíðin hefst á fimmtudag og stendur til sunnudags.
Á hátíðinni, sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, verður boðið upp á sóló-jazz og Lindy hop kennslu fyrir byrjendur og lengra komna undir leiðsögn þriggja af fremstu sveifludönsurum heims.
Þá munu tvær af frambærilegustu sveifluhljómsveitum landsins, „Siggi Swing & His Bluesberries“ og „HG Quintet“ með Hauk Gröndal í fararbroddi, leika fyrir dansi öll kvöld hátíðarinnar en með þeim mun stíga á stokk sérstakur gestur frá New York, ástralski saxófón- og klarínettleikarinn Adrian Cunningham, margverðlaunaður djasstónlistarmaður sem um þessar mundir leiðir eina eftirsóttustu Lindy hop hljómsveit veraldar.
Auk danskennslu og dansleikja verður gestum hátíðarinnar boðið upp á útsýnisferðir um helstu kennileiti Suðurlands, slökun í heitum náttúrulaugum, gönguferðir um nágrennið og, ef vel viðrar, verður hægt að dansa undir berum himni við sindrandi norðurljós.
Félagsheimilið á Flúðum verður í forgrunni á hátíðinni en þar mun Lindy on Ice hafa bækistöðvar sínar frá fimmtudegi til laugardags. Lokadansleikur hátíðarinnar verður svo haldinn með pompi og pragt í Iðnó í Reykjavík sunnudagskvöldið 18. febrúar.
Vert er að taka fram að dansleikirnir verða opnir öllum almenningi.
Að baki Lindy on Ice standa tveir meðlimir Lindy Ravers, áhugamannafélags um iðkun Lindy hop á Íslandi, en tilgangur hátíðarinnar er einkum og sér í lagi að stuðla að virkara sveiflutónlistar- og sveifludans-samfélagi á Íslandi og efla með því menningarlegan fjölbreytileika. Allir eru velkomnir á hátíðina, hvort heldur byrjendur með litla sem enga dansreynslu eða lengra komnir.
Það er markmið skipuleggjenda að gera Lindy on Ice að árlegum viðburði.
Hér að neðan má sjá myndband, hvar dansað er Lindy hop.