Tanya Ponomarenko er ung listakona frá Úkraínu sem hefur verið að gera það gott að undanförnu með fallegum málverkum og einstökum útsaumi.
Tanya býr á Selfossi ásamt eiginmanni sínum, Þresti Albertssyni og tíu mánaða dóttur þeirra, Sonju, en hún flutti hingað í byrjun árs 2020.
Allt frá barnæsku hefur Tanya verið að mála og búa til allskonar listmuni – fjölskyldu sinni til mikillar ánægju. Hún hafði aftur á móti verið í nokkurra ára pásu frá sköpuninni þegar covid-leiðindin hálfpartinn neyddu hana til að taka upp þráðinn á ný. Þá fékk eiginmaður hennar nóg af kvartinu í henni, eins og hún segir sjálf, og keypti fyrir hana alls konar listföng og fleira svo að hún hefði eitthvað fyrir stafni og þá var ekki aftur snúið. Listakonan Tanya var endurfædd og öflugri en nokkru sinni fyrr.
Kallar fram góðar tilfinningar
Tanya málar myndir og saumar út undir listamannsnafninu Lulu handverk og hafa verkin hennar vakið athygli fyrir falleg smáatriði og mikla nákvæmni. „Það er erfitt fyrir mig að lýsa listinni minni. Ég kýs frekar að fólk lýsi hvaða tilfinningar verkin mín vekja hjá þeim og hvernig verkin mín líta út í þeirra augum. En allt sem ég geri á að láta þér líða eins og heima, hvar sem þú ert,“ segir Tanya í samtali við sunnlenska.is.
„Ég elska list sem hefur eitthvað innihald – eltir ekki bara tískubylgjur og strauma. Mér finnst að listin mín bæti við smáatriðunum sem gera heimilið þægilegt og notalegt. Eitthvað sem þú getur horft á og gerir þig samstundis afslappaða og örugga. Þú getir tekið djúpan andardrátt og fundið fundið staðinn þar sem þú ert umlukin ást og umhyggju.“
Hverju listformi fylgir ákveðin stemning
Hin ýmsu listform heilla Tanya og segir hún ómögulegt að velja eitthvað eitt sem uppáhalds – hún elskar þau öll. „Þetta fer mikið eftir skapinu sem ég er í. Umhverfinu, stemningunni, innblæstrinum og mörgum öðrum þáttum. Ég elska að mála – það er ekki spurning. Það er það sem hefur fylgt mér frá barnæsku. Í dag er ég aðallega í útsaumi vegna þess að hann hentar mínum lífsstíl og ég elska hvað ég er orðin lunkin í honum.“
„Ég elska líka að sauma með vélinni. Ég hef líka verið að prófa mig áfram með epoxý plastefni – elska það! En ég þarf að skipuleggja vinnuumhverfið mitt betur og þarf almennt meira pláss fyrir það. Svo að það er á smá pásu í bili, svo að ég geri manninn minn ekki of pirraðan á óreiðunni sem ég bý til þegar ég kemst í sköpunarflæðið – sköpunarflæðið sem veitir mér aldrei innblástur til að þrífa eftir sjálfa mig,“ segir Tanya og hlær.
Á það til að verða feimin við allt hrósið
Tanya segir að hún hafi aðeins fengið jákvæð viðbrögð frá fólki þegar það sér listaverkin hennar en hún segist þó vel þola gagnrýni. „Það er svo gaman að heyra hversu hissa fólk er þegar það sér verkin mín – hversu falleg þau eru. Hversu hæfileikarík ég er. Þegar ég fæ spurninguna „bjóst þú þetta til?“ þá líður mér eins og ofurmanneskju og mitt innra barn hoppar eins og brjálæðingur af gleði. En utan frá séð verð ég feimin og get ekki svarað fólki almennilega fyrir hrósið. Það lítur mjög vandræðalega út og líklega dónalega en ég er að vinna í því að hegða mér eins og eðlileg manneskja þegar ég fæ mikla athygli frá fólki,“ segir Tanya létt í bragði.
Listmálun og Barbie
Tanya hefur verið svo lánsöm að hún hefur alla tíð haft nægan stuðning frá fjölskyldunni sinni við listsköpunina. „Ég gat alltaf fengið hvaða málningu eða pappír sem mig vantaði. Efni og vinnupláss var alltaf til staðar fyrir mig til að villast í „listheiminum“ mínum og ég var ekki trufluð af neinum tímunum saman, eða þar til ég var búin með verkið mitt og tilbúin að sýna öðrum.“
Eins og flestir listamenn þá hefur Tanya alla tíð verið mikið fyrir að skapa. „Ég er einkabarn, svo að það er erfitt að segja hvort öll börn hafi málað svona mikið en það var minn aðal leikur – fyrir utan Barbie, auðvitað,“ segir Tanya brosandi. „Ég elskaði að búa til hluti úr pappír, klippa út, líma og mála. Allir fjölskyldumeðlimir fengu endalaust af heimatilbúnum gjöfum frá mér. Amma þurfti meira að segja að tæma heilan skáp til að geta geymt öll meistaraverkin mín.“
Sex ár í paradís
Þegar Tanya hafði aldur til skráði fjölskylda hennar hana í listaskóla. „Það bjargaði okkur öllum. Ég hafði þrjá klukkutíma, þrisvar í viku, eingöngu til að búa til list með krökkum og kennurum sem tóku einnig þátt í ferlinu og gátu leiðbeint okkur til að ná sem bestum árangri. Ég eyddi sex árum í paradís, svo útskrifaðist ég, fór í framhaldsskóla og ég þurfti að undirbúa mig fyrir háskóla, svo að skapandi tími varð styttri og ég hafði áberandi minni orku og innblástur fyrir allt.“
„Fjölskyldan mín var alltaf að hrósa listsköpun minni en þau voru sannfærð um að list gæti ekki verið alvöru framtíðarstarf. Þetta yrði bara áhugamál og að það væri brjálæði að plana framtíðina í kringum listmálun eða skúlptúra.“
Eiginmaðurinn fékk nóg af kvartinu
Í kjölfarið ákvað Tanya að taka sér pásu í nokkur ár. „Svo hitti ég eiginmann minn og flutti hingað til Íslands. Hann komst að því að ég elskaði list mjög mikið. Þetta var akkúrat á þeim tíma sem covid byrjaði þannig að við vorum mikið heima. Mér leiddist mjög mikið og hann nennti ekki að hlusta á mig kvarta lengur, svo að hann keypti handa mér blýanta, pappír, málningu og fleira sem ég þurfti til að eyða frítímanum mínum í. Það hjálpaði okkur án efa að vera í betra skapi og eyða dögunum á ánægjulegri hátt.“
„Ég er honum svo þakklát að minna mig á hversu frábærlega mér líður þegar ég er að búa til list og fyrir að styðja mig í öllu sem ég geri – þó að eyði alltaf meiri og meiri peningum úr fjölskyldusjóðnum í allar hugmyndirnar sem ég fæ,“ segir Tanya og brosir.
Náttúran og töfrandi fólk veitir innblástur
Innblásturinn sækir Tanya fyrst og fremst til náttúrunnar. „Ég fæ innblástur með því að fara að sjónum, leita að pínulitlum blómum í skóginum, verða blaut undir fossi og grípa regnbogann. Fólk veitir mér innblástur, þetta töfrandi fólk með hjartað á réttum stað, sem er alltaf tilbúið að hjálpa öðrum. Ég er ekki þannig, mér finnst ég frekar lokuð og einhvern veginn alltaf í mínum eigin heimi. En ég dáist mikið að fólki, ég sýni það kannski ekki alltaf en ég hugsa mikið um það.“
„Að gleðja fólk veitir mér innblástur. Að búa til gjafir er í raun toppurinn hjá mér! Ég elska það þegar ég fæ hugmyndina og finn að það mun passa manneskjunni fullkomlega. Þá get ég ekki stoppað fyrr en ég er búin og búin að gefa það sem gjöf. Vonandi þarf ég ekki að bíða eftir einhverjum sérstökum hátíðisdag, því að þolinmæði er ekki mín sterkasta hlið.“
Engin leið að tjá stríðssársaukann
Það er ekki hægt að taka viðtal við listakonu frá Úkraínu án þess að minnast á stríðið sem er þar í gangi. Talið berst að því hvort stríðið hafi haft áhrif á listsköpun hennar á einhvern hátt.
„Það eru átta ár síðan stríðið byrjaði í heimabæ mínum, Horlivka. En innrás Rússa í Úkraínu í febrúar síðastliðnum hófst þegar dóttir mín var aðeins átta vikna, svo að ég hafði engan tíma og var í raun ekki að búa til neina list yfir höfuð á þeim tíma. Ég var mest pirruð vegna þess að hún var frekar krefjandi barn og grét mjög mikið. Auk þess voru fréttirnar sem ég var að fá frá Úkraínu að brjóta mig að innan. Það er orðið auðveldara með dóttur mína núna, en ástandið í Úkraínu er ennþá bæði hættulegt og niðurdrepandi. Ég geri enga sérstaka list útaf stríðinu. Ég sé bara enga mögulega leið til að tjá allan þennan sársauka,“ segir Tanya og bætir við að útsaumurinn hjálpi henni að flýja raunveruleikann og týna sér í Hvergilandi.
„Saum eftir saum, með skýran huga, engan ótta, engar hugsanir. Ég róast niður og nýt þess þar til stelpan mín fer að gráta. Það er raunveruleikinn eins og hann er,“ segir Tanya og brosir.
Gengur illa að aðlagast íslenskri veðráttu
Sem fyrr segir flutti Tanya til Íslands í byrjun árs 2020, rétt áður en covid byrjaði. „Ísland er fallegt og skrítið ef ég á að vera hreinskilin. Ég elska náttúruna, elska hversu öruggur og rólegur maður getur verið hér. En ég get enn ekki vanist veðrinu, loftslaginu eða vindinum. Ég elska sumrin og sólríka daga en eins og sagt er, þá velur maður ekki heimilið sitt og er Ísland hægt og rólega að verða mitt nýja heimili. Ég kom upp minni litlu fjölskyldu hér og hér á Selfossi hef ég byrjað nýjan kafla í lífinu mínu. Þetta er svo allt öðruvísi en um leið svo dýrmætt og einstakt.“
Aðal vinna Tanya er að vera mamma 10 mánaða Sonju. „Hún er lítið, öskrandi og hlæjandi kraftaverk,“ segir Tanya hlæjandi. „Ég á enn enn næstum því ár eftir þar til leikskólinn byrjar hjá henni.“
Dýrmætt að búa til list fyrir lítil börn
Tanya hefur stofnað Instagram-síðu, @lulu_handverk, til að halda utan um handverk sitt, þar sem fólk getur pantað persónulegan útsaum fyrir börn.
„Það er svo erfitt fyrir heilann minn að hugsa um eitthvað annað, þar sem ég er allan sólarhringinn með dóttur minni. Í Úkraínu þýðir „lublu“ ást og ég elska að skapa hluti. Auk þess er það enn meira einstakt að búa til skreytingar fyrir litlar manneskjur sem komu inn í líf okkar, svo hreinar og opnar fyrir þessu lífi. Þau eru svo tilbúin til að uppgötva, þau treysta heiminum, treysta þér og guði sé lof þá vita þau ekki hversu hættulegt og hræðilegt lífið getur stundum orðið.“
Erfitt fyrir fólk að yfirgefa heimili sín
Talið berst aftur að stríðinu í Úkraínu og hvort ættingjar Tanya hafið ákveðið að flýja land – jafnvel koma til Íslands. „Nei, mamma og amma og afi vilja ekki flytja neitt. Þau munu verða í Úkraínu. En þau hafa komið í heimsókn til mín og séð Sonju, sem er sennilega aðal viðburðurinn í lífi þeirra. Þau eiga sitt heimili og sitt líf í Úkraínu. Þó að ástandið sé ógnvekjandi núna þá eru þau ekki tilbúin til að byrja frá byrjun og skilja allt eftir.“
„Fyrir þá sem lifa í friði er líklega skrítið að heyra þetta en ég dæmi þau ekki. Ég trúi því að flestir Íslendingar myndu ekki flytja neitt ef þeir lentu í þessum aðstæðum, vegna þess að þessi „heima“ tilfinning heldur þér þar sem þú ert. Það er satt að maður getur alltaf byrjað upp á nýtt einhvers staðar annars staðar, en þú verður að vera tilbúin til þess. Sumt fólk þarf ekki annað heimili, á meðan það á enn raunverulegt heimili sem það elskar, sama hvað. Ræturnar eru sterkari en þig grunar og þú áttar þig kannski ekki almennilega á krafti þeirra fyrr en þú hefur raunverulegt tækifæri til að reyna á hann.“
Vill vera góð fyrirmynd fyrir dóttur sína
Þrátt fyrir svefnleysi og lítinn frítíma er listsköpun gífurlega mikilvæg fyrir Tanya og setur hún listina í ákveðinn forgang. „Það að verða mamma opnaði alveg nýjan heim fyrir mig. Ég sé bara hversu sterk ég er í raun og veru og ég hef meiri trú á sjálfri mér síðan ég eignaðist stelpuna mína. Ég vil vinna meira að list minni og ég vil elta drauminn og ástríðuna mína.“
„Og annað mikilvægt – ég vil vera góð fyrirmynd fyrir dóttur mína. Ég vil að litla Sonja mín horfi á mig og trúi að hún geti líka fylgt hjartanu og látið drauma sína verða að veruleika, ef hún bara leggur sig nógu mikið fram. Þó að það verði ekki aðalstarfið hennar, þá er alltaf pláss og tími í lífinu fyrir allt sem mann virkilega langar í og þarf,“ segir Tanya að lokum.