Listagjöf til þjóðarinnar á aðventunni

Listagjöf. Ljósmynd/Listahátíð

Íbúum um allt land býðst að njóta listagjafar helgina 19.-20. desember nk. Listafólk í fremstu röð mun þá sækja fólk heim og flytja stutta listgjörninga, tónlist, ljóðlist, sirkusatriði eða dans sem gefendur geta pantað fyrir ástvini í gegnum vefinn. Einnig verður boðið upp á rafrænar listagjafir til þeirra sem geta ekki tekið á móti gjöf í eigin persónu vegna sóttvarnatilmæla eða staðsetningar.

Verkefni þetta er unnið í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík og kemur í framhaldi af viðbragðsverkefni þeirra Listagjöf sem vakti mikla lukku í Reykjavíkurborg í byrjun nóvember. Áætlað er að hið minnsta 100 listamenn muni að þessu sinni dreifa allt að 750 listagjöfum á tugi áfangastaða um land allt.

„Við hjá Listahátíð erum stolt og glöð yfir því að geta nú boðið upp á þetta þakkláta verkefni um land allt. Listagjöf veitir almenningi kærkomið tækifæri til þess að gleðja ástvini á einstaklega krefjandi tímum og skapar hins vegar dýrmæt atvinnutækifæri fyrir það listafólk sem hefur tekið hvað mest högg á sig í faraldrinum,“ segir Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.

Opnað verður fyrir gefendur að panta Listagjafir á hádegi mánudaginn 14. desember. Þær verður hægt að panta gegnum vefslóðina listagjof.listahatid.is en þar verður einnig að finna allar nánari upplýsingar.

Fyrri greinDregið í fyrstu umferð Gettu betur
Næsta greinSigrún tekur sæti í bæjarstjórn