Alþjóðlega listsýningin og vinnustofan Oceanus Hafsjór „Dálítill sjór“ hófst á Eyrarbakka þann 6. júlí síðastliðinn en formleg sýningar opnun verður í dag klukkan 14:00.
Sýningin stendur á laugardögum og sunnudögum til 23. júlí kl. 13-18. Á þeim tíma munu sýningar, gjörningar, dans, tónlist og performance, munu fara fram í Kartöflugeymslunni, verksmiðjuhúsnæði við Búðarstíg, Mangaskúr og fleiri óhefðbundnum sýningarrýmum víðs vegar um þorpið á Eyrarbakka.
Að sögn Ástu Guðmundsdóttur, sem stendur fyrir sýningunni, er helsta markmið verkefnisins að efla menningarstarfsemi og listsköpun á svæðinu og í nágrenni þess.
„Við viljum virkja almenning til listsköpunnar. Vekja áhuga á menningu og sögu okkar sem fyrirfinnst ríkulega á Eyrarbakka. Annað mikilvægt markmið er að auka víðsýni og efla tengingar við framandi menningarheima og hleypa auknu lífi í og fá sýn annra á samfélagið okkar. Eyrarbakki verður í brennidepli, iðandi af lífi og íbúar héraðsins og aðrir gestir, finna, upplifa og taka mögulega þátt í undirbúningi og verða þannig partur af hátíðinni,“ segir Ásta og bætir við að „glöggt sé gests augað“ og þannig verði áhugavert að sjá túlkun listafólksins á umhverfi og menningu okkar.
Þátttakendur í sýningunni eru 20 listamenn frá Slóvakíu, Póllandi, Þýskalandi, Mauritius, Frakkalandi, Suður Kóreu og Íslandi. Þeir dvelja flestir á Eyrarbakka í u.þ.b. 2-3 vikur og vinna að list sinni, jafnframt því að frumsýna myndefni og myndskeið frá hátíðinni í fyrra, Hafsjó Oceanus. Listamennirnir eru myndlistarfólk, tónlistarfólk, ljósmyndarar, gjörningalistafólk, dansarar og rithöfundar.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.