Listasafn Árnesinga í Hveragerði býður upp á listamannaspjall á uppstigningardag, þann 9. maí klukkan 14:00. Þar munu Sigga Björg og Mikael Lind spjalla við Kristínu Scheving safnstjóra LÁ um verkið Hamflettur.
Myndbandsinnsetning Siggu Bjargar Sigurðardóttur og Mikaels Lind, Hamflettur, er unnin sérstaklega fyrir sýninguna sem stendur yfir í Listasafni Árnesinga. Innsetningin samanstendur af 30 vídeóverkum og 30 hljóðverkum unnum fyrir 3 skjávarpa og 6 hátalara.
Sigga Björg vinnur jöfnum höndum að hlutbundnum og óhlutbundnum teikningum á pappír, ásamt því að mála og teikna beint á veggi. Hún hefur skapað fjölmörg myndbandsverk er byggja á stop-motion tækni þar sem hver rammi hreyfimyndarinnar er handteiknaður. Á sýningunni má auk vídeóverkana sjá teikningarnar þrjátíu sem urðu til við gerð myndbandsverkanna og mætti líta á þær teikningar sem hreyfimyndir jafnvel þótt þær séu unnar með blýanti, penna og vatnslit á pappír. Teikningarnar eru unnar lag fyrir lag og teknar upp ramma fyrir ramma, eru því tengsl teikninganna við myndbandsverkin órjúfanleg.
Hljóðheimur myndbands-innsetningarinnar er unninn af raftónlistarmanninum Mikael Lind en þau Sigga Björg hafa unnið saman að fjölda myndbandsverkefna á síðastliðnum árum. Mikael túlkar liti og hreyfingar myndefnisins með einstökum hljóðheimi sem einkennist af fjölbreyttum raftónlistarstílum. Hljóðverkin spanna allt frá ambient og musique concrete yfir í hreina techno tónlist. Hljóðheimur Mikaels vinnur á áhrifaríkan hátt að því að opna fyrir og skapa rými innan heildarverksins.
Aðgangur að Listasafninu – og listamannaspjallinu – er ókeypis nú sem áður.