Í dag, sunnudag kl. 15, verður Sigtryggur Bjarni Baldvinsson með listamannaspjall á sýningunni ÁR: málverkið á tímum straumvatna í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Þar má nú sjá málverk eftir Þorvald Skúlason og Sigtrygg Bjarna Baldvinsson í samhengi í fyrsta sinn. Tvö málverk með titilinn Ölfusá eftir sinn hvorn höfundinn eru inngangurinn að sýningunni sem er samvinnuverkefni Listasafns Árnesinga og Listasafns Háskóla Íslands. Auður Ólafsdóttir listfræðingur er sýningarstjóri.
Þrjátíu og fimm ár skilja að Ölfusármyndir þeirra Þorvalds og Sigtryggs. Á því tímabili hafa margar ár runnið til sjávar í samtímalistinni. Við fyrstu sýn kann að virðast sem himinn og haf skilji að hugmyndaheim módernista af gamla skólanum og samtímamálara, en á sýningunni má sjá að nálgun konseptmálarans Sigtryggs á þó býsna margt sameiginlegt með formrannsakandanum og rökhyggjumanninum Þorvaldi Skúlasyni. Á sunnudaginn gefst kærkomið tækifæri til þess að ræða við Sigtrygg Bjarna um verkin, strauma og stefnur eða annað sem sem sýningin vekur.
Nánari upplýsingar um sýninguna og listamennina má fá á heimasíðu safnsins www.listasafnarnesinga.is eða á safninu sjálfu. Safnið er opið alla daga kl. 12-18, allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.