Í dag kl. 15 mun Ólöf Nordal ræða við gesti um verk sín á sýningunni Þjóðleg fagurfræði sem nú stendur í Listasafni Árnesinga.
Auk þess að skoða verk hennar gefst tækifæri til þess að ræða við hana almennt um listsköpun hennar, aðferðafræði og viðfangsefni.
Ólöf stundaði nám á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hún vinnur oft með ýmis þjóðleg minni og setur þau í samhengi samtímans. Frá námslokum hefur hún verið mjög virk í sinni listsköpun og hlotið ýmsar viðurkenningar svosem úr Listasjóði Dungals, Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur og Höggmyndasjóði Richard Serra.
Hún er höfundur nokkurra listaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi ýmist utan- eða innandyra. Innandyra má nefna verk eins og Vitid ér enn – eda hvat? í Alþingishúsinu og Fugla himinsins, altarisverk Ísafjarðarkirkju en utandyra má nefna Geirfuglinn í Skerjafirði og Bríetarbrekku, sem er minnisvarði um Bríeti Bjarnadóttur svo dæmi séu tekin.
Höfundar annarra verka á sýningunni eru Ásgrímur Jónsson, Gísli Jónsson, Jóhannes Kjarval, Halldór Einarsson, Kristinn Pétursson, Bjarni H. Þórarinsson, Birgir Andrésson, Guðjón Ketilsson, Hulda Hákon, Daníel Þ Magnússon og Aðalheiður S. Eysteinsdóttir.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.listasafnarnesinga.is