Listasafn Árnesinga hlaut menningarverðlaun Hveragerðisbæjar árið 2024 en verðlaunin voru afhent á 17. júní. Listasafnið hefur um árabil verið einn af hornsteinum menningar í bænum með metnaðarfullum sýningum og fjölmörgum öðrum viðburðum.
Safnið heldur einnig úti markvissu fræðslustarfi þar sem unnið er með mismunandi skólastigum, listamönnum, fræðimönnum og almenningi. Námskeið og smiðjur eru haldnar reglulega fyrir almenning þar sem gefst kostur á að vinna með mismunandi miðla í tengslum við sýningar safnsins.
Listasafn Árnesinga er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga, en öll sveitarfélögin í Árnessýslu eiga aðild að henni.
Verðlaunagripurinn var sérhannaður af Hrönn Waltersdóttur listakonu í Hveragerði og nefnist Menningarstólpinn.