Listasafn Árnesinga opnaði á nýjan leik í gær eftir stutt vetrarhlé. Safnið er nú opið frá fimmtudegi til sunnudags frá kl. 12-18.
Sýningarnar tvær Rósa Gísladóttir – skúlptúr og Samstíga – abstraktlist frá síðasta ári undir yfirheitinu Hliðstæður og andstæður hafa fengið góð viðbrögð gesta og enn gefst tækifæri til þess að líta þær augum þar sem sýningartíminn hefur verið framlengdur til 23. febrúar.
Viðfangsefni sýninganna draga fram sjónarhorn á listasöguna og gefa tilefni til umræðu og á heimasíðu safnsins hafa einnig verið sett inn hugleiðingar og verkefni fyrir gesti til þess að vinna með. Það er líka von okkar að skólar geti nýti sér þá þjónustu og virki hana enn betur með heimsókn í safnið.
Markmiðið með sýningunni Samstíga er að kynna ákveðin tímabil og stefnur í íslenskri myndlist á árunum 1945-1969 og opna fólki aðgang að þeim menningararfi sem Listasafn Íslands varðveitir, en það er samstarfsaðili þeirrar sýningar. Skúlptúrar Rósu víkka hið sögulega sjónarhorn á flatarmálsfræðina og samhverfuna í myndlist. Verk hennar byggja á ævafornri hefð þegar flatarmálsfræðin var ríkjandi í samfélaginu en flatarmálsfræði myndlistar á sjötta og sjöunda áratugnum var ákveðið uppgjör við fortíðina. Verk sýninganna birta þannig bæði hliðstæður og andstæður í inntaki og formi.