Listasafn Árnesinga og Orgelsmiðjan á Stokkseyri eru meðal þeirra tíu verkefna sem eiga möguleika á að hljóta Eyrarrósina í ár.
Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunnar. Hún beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík.
Tíu verkefni eru tilnefnd og eru þau jafn fjölbreytt og þau eru mörg og koma alls staðar að af landinu. Þann 18. mars næstkomandi verður tilkynnt hvaða þrjú verkefni hljóta tilnefningu til verðlaunanna. Eitt þeirra hlýtur að lokum Eyrarrósina, 1.650.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands en hin tvö verkefnin hljóta peningaverðlaun og flugferðir frá Flugfélagi Íslands.
Eyrarrósin verður afhent með viðhöfn laugardaginn 4.apríl næstkomandi á Ísafirði. Að venju mun Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhenda verðlaunin.
Í Listasafni Árnesinga fer fram metnaðarfullt sýningarhald. Að jafnaði eru settar upp fjórar til sex sýningar á ári. Áherslan í sýningarhaldi og meginmarkmið safnsins er að efla áhuga, þekkingu og skilning á sjónlistum með sýningum, fræðslu, umræðu og öðrum uppákomum sem samræmast kröfu safnsins um metnað, fagmennsku og nýsköpun.
Orgelsmiðjan á Stokkseyri er eina starfandi pípuorgelverkstæði landsins. Pípuorgelsmíði er blanda af listhönnun og iðngrein þar sem tónlist, fagursmíði og hönnun sameinast. Orgelsmiðjan hefur verið starfrækt síðan 1986 en á síðasta ári opnaði þar fræðslusýning sem byggir á hugmyndafræði „Economuseum“ eða hagleikssmiðju, einnig er rýmið notað til tónleikahalds.
Auk þessara sunnlensku verkefna eru á listanum Braggast á Sólstöðum í Öxarfirði, Nes Listamiðstöð á Skagaströnd, listahátíðin Ferskir vindar í Garði, Frystiklefinn á Rifi, Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði, Verksmiðjan á Hjalteyri, Listasafnið á Akureyri og Þjóðlagasetrið á Siglufirði.