Listasafn Árnesinga er komið í hóp þriggja verkefna sem keppa um Eyrarrósina 2015. Eyrarrósin er veitt árlega framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunnar.
Auk Listasafnsins eru það Frystiklefinn á Rifi og Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði sem eru tilnefnd. Hvert verkefni hlýtur flugmiða frá Flugfélagi Íslands og peningaverðlaun.
Það kemur síðan í ljós við hátíðlega athöfn á Ísafirði þann 4. apríl næstkomandi hver stendur uppi sem Eyrarrósarhafi ársins 2015 og fær í verðlaun 1.650.000.- kr. Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin á Ísafirði.
Í Listasafni Árnesinga fer fram metnaðarfullt sýningarhald. Að jafnaði eru settar upp fjórar til sex sýningar á ári. Áherslan í sýningarhaldi og meginmarkmið safnsins er að efla áhuga, þekkingu og skilning á sjónlistum með sýningum, fræðslu, umræðu og öðrum uppákomum sem samræmast kröfu safnsins um metnað, fagmennsku og nýsköpun.