Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fékk styrk frá Sprotasjóði í fyrra til að efla samband og samvinnu við nærumhverfi skólans – BES lítur sér nær.
Fyrsti hluti þeirrar vinnu leit dagsins ljós á dögunum þegar nemendur skólans unnu með Ástu Guðmundsdóttur, listakonu á Eyrarbakka, að alþjóðlegu listaverkefni með japanska listamanninum Takuya Komaba. Ásta og Takuya hafa unnið saman að nokkrum verkefnum síðustu árin og nú fengu nemendur BES að taka þátt í samstarfi þeirra sem blandar saman myndlist og tónlist.
Verkefnið fór þannig fram að Takuya lék á píanó í eina og hálfa klukkustund á heimili sínu í Japan og var þeim píanóleik streymt á netinu til Íslands þar sem nemendur BES máluðu listaverk undir hughrifum frá tónlist japanska listamannsins. Listaverk nemenda Barnaskólans verða svo send til Japan, þar sem þau verða til sýnis á listasýningu í Kyoto í mars.


