Á sumardaginn fyrsta mun Listasafn Árnesinga bjóða upp á samtal um listmeðferð sem titlast Art Can Heal eða List getur heilað.
Ágústa Oddsdóttur höfundur bókarinnar Art Can Heal ræðir um ævi og störf Sigríðar Björnsdóttur listþerapista og listakonu en segir einnig frá eigin reynslu þegar hún sjálf sótti meðferð hjá Sigríði.
„Sigríður er mikill frumkvöðull á sviði listaþerapíu á Íslandi og eftirsóttur fyrirlesari víða um heim. Hún hófst við að móta og þróa sjálfstætt svið innan myndlistarinnar aðallega á barnaspítölum bæði hér á landi og erlendis upp úr sjötta áratugnum. Starf Sigríðar vakti mikla athygli á alþjóðavettvangi og var henni boðið á hvert einasta barnalæknaþing víða um heim í marga áratugi til að kynna starf sitt,“ segir Alda Rose Cartwright hjá Listasafni Árnesinga í samtali við sunnlenska.is.
„Á fimmtudaginn munu listmeðferðarfræðingarnir Elísabet Lorange og Dr. Unnur Óttarsdóttir einnig kynna störf listmeðferðarfræðinga á Íslandi í dag og þróun fagsins sem felur meðal annars í sér rannsóknir Dr. Unnar á námslistmeðferð, teikningu og minni sem hafa fengið athygli innanlands og utan og eru því að hafa áhrif á heimsvísu. Elísabet og Dr. Unnur kynna einnig listmeðferðarsmiðjur sem þær munu halda á Listasafni Árnesinga síðar í sumar.“
Athyglisvert og áhrifaríkt úrræði
Alda Rose segir að listmeðferð sé athyglisvert og áhrifaríkt meðferðarúrræði fyrir fólk á öllum aldri sem fer ört vaxandi og enn fleiri sækja í sem glíma við tilfinningarlegan vanda.
„Listmeðferð er talin hafa heilandi áhrif sem meðal annars dregur úr streitu, hjálpar til við að vinna úr erfiðum tilfinningum og bætir andlega vellíðan. Uppruni listmeðferðar nær aftur til snemma á 20. öld, þegar læknar, kennarar og listamenn fóru að taka eftir því að listsköpun gæti hjálpað fólki með tilfinningalegar og sálfræðilegar áskoranir. Listmeðferð var formlega viðurkennd sem meðferðarúrræði á fjórða áratugnum, sérstaklega í Bandaríkjunum og Bretlandi.“
„Allir eru velkomnir á þetta spjall hvort sem þeir eru listamenn, kennarar, meðferðaraðilar eða bara áhugasamir um Sigríði, fagið og hagsbætur meðferðarinnar. Viðburðurinn er ókeypis,“ segir Alda Rose ennfremur.