
Fjölmenni mætti í opið hús í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ í dag, 17. júní, þar sem þrjár listakonur efndu til sýningar á verkum sínum á heimavelli.
Gestir kynntu sér þannig annars vegar glæsileg húsakynni og starfsemi nýs matarupplifunarfyrirtækis í Oddsparti og hins vegar listmuni og handverk sýnendanna þriggja.
Listakonurnar í Þykkvabæ eru Borghildur Ingvarsdóttir í Vatnskoti, Halldóra Hafsteinsdóttir í Hákoti og Hrönn Vilhelmsdóttir í Oddsparti.
Borghildur er hönnuður og einn eigenda verslunarinnar Kirsuberjatrésins í Reykjavík. Hún kann öðrum fremur að endurnýta ýmislegt sem lagt hefur verið til hliðar og sýndi þarna hluti sem unnir voru úr forláta leðurjakka sem hún fékk gefins í Þykkvabæ!
Halldóra eða Dóra er kartöflubóndi og leirlistakona, Þykkbæingur í húð og hár. Hún sýndi leirverk.
Hrönn er textíllistamaður og sýndi textíl og sandverk. Þau Þórólfur Antonsson keyptu Oddspart 2017 og hafa ásamt Hauki Sigvaldasyni smiði breytt útihúsum þar í veislusal og eldhús fyrir starfsemi Hlöðueldhússins. Fyrirtækið fékk starfsleyfi fyrir fáeinum dögum og er að hefja rekstur sem felst í því að taka á móti 10 til 16 manna hópum vina, vinnufélaga eða annarra til að elda saman og njóta sannkallaðrar matarupplifunar. Jafnframt verður rekin veisluþjónusta fyrir stærri hópa, allt að 50 manns í einu.




