Selfyssingurinn Gunnlaugur Bjarnason hefur sent frá sér sína fyrstu ljóðabók, sem nefnist Svartdjöfull. Í tilefni af útgáfunni verður hóf í Bókakaffinu Ármúla í Reykjavík á morgun, föstudag.
Blaðamaður sunnlenska.is settist niður með Gunnlaugi á Bookstor bókakaffinu í miðbæ Haag í Hollandi á dögunum og spjallaði um bókina, innblásturinn og lífið. „Einn af fáum stöðum hér í Haag sem hella upp á almennilegt kaffi,“ segir Gunnlaugur og fær sér bolla af Americano og væna sneið af gulrótarköku.
Hann segir hugmyndina að bókinni hafa kviknað þegar hann var úti að labba með Áslaugu, dóttur sína í barnavagni.
„Hún hefur líklegast bara verið svona 4-5 mánaða gömul. Ég hafði hugsað mér að hafa það náðugt og stoppa kannski í nokkrum bókabúðum, fá mér kaffi en Áslaug hélt nú ekki,“ segir Gunnlaugur.
„Ég mátti aldrei hætta að labba því þá vaknaði hún. Þannig að skyndilega var ég búinn að labba fleiri, fleiri kílómetra en í hvert skipti sem ég hægði á mér þá fór hún að gráta. Í þessum göngutúr varð mér hugsað til annarra lífvera, sem mega aldrei hætta að hreyfa sig en það eru ákveðnar gerðir af hákörlum. Þessir hákarlar þurfa sífellt vatnsstreymi í gegnum tálknin til að mynda súrefni og ef þeir hætta að hreyfa sig þá er líklegast að þeir deyi bara. Þannig að þá datt mér í hug þessi frásögn af manni sem gæti aldrei hætt að ganga og myndi að lokum bara breytast í hákarl.“
Hákarlamyndböndin ekki leiðinleg
Gunnlaugur segir að hann hafi byrjað að skrifa bókina um leið og hann kom heim úr göngutúrnum. „Það var í janúar 2021, ef ég man rétt. Ég skrifaði fyrst bara nokkra punkta út frá þessum pælingum en lét þetta svo bara liggja aðeins og meltast. Þessi hugmynd var komin til að vera og ég gat ekki hætt að hugsa um hana þannig að stuttu seinna tók ég aftur upp það sem ég var búinn að skrifa og hélt áfram að bæta í og breyta.“
„Ég stundaði líka rannsóknir á hákörlum, sem skilaði sér að miklu leyti í textann. Meðal annars vísa ég töluvert í bók Theodórs Friðrikssonar, hákarlaveiðimanns og rithöfundar, Hákarlalegur og hákarlamenn. Svo fann síminn min þetta á sér, að ég væri að skrifa að einhverju leyti um hákarla og stingur núna reglulega upp á hákarlamyndböndum fyrir mig að horfa á en mér finnst það svosem ekki leiðinlegt.“
Sér sjálfur um að myndskreyta bókina
Haustið eftir fór Gunnlaugur svo að skrifa mjög markvisst. „Þá fór þetta að taka meira og meira á sig mynd sem ljóðabók. Svo fór ég að senda þetta á vini sem ég treysti til að lesa yfir og fékk komment og ráðleggingar og kannski það sem mestu máli skipti, þá fékk ég svo góða hvatningu til að gefa þetta út, alveg sama hvað. Það skiptir svo miklu máli að hvetja fólk áfram en ekki að draga úr því.“
Aðspurður hvernig hafi gengið að velja ljóðin í bókina segir Gunnulaugur það hafa gengið vel en tekið sinn tíma. „Í janúar á þessu ári var fyrsta uppkastið tilbúið en frá þeim tíma hef ég aðeins breytt og hent út nokkrum ljóðum. Ég er voðalega hægskrifandi þannig að ég hef ekki þurft að henda miklu út en það tók mig dálítinn tíma að binda þetta allt saman, því ég hugsaði þetta frá upphafi sem eina heildarfrásögn.“
„Ég held samt að mestur tími hafi farið í gera ekki neitt, láta handritið ósnert inn á milli, leyfa því aðeins að jafna sig. Svo tók ég það aftur upp eftir einhvern tíma og bætti í eða tók úr. Mestu breytingarnar sem hafa orðið á handritinu síðustu mánuði er það að ég ákvað að myndskreyta bókina með myndum eftir sjálfan mig.“
Allir og amma þeirra að gefa út ljóðabók
Gunnlaugur er sonur hjónanna Bjarna Harðarsonar, rithöfundar og bóksala og Elínar Gunnlaugsdóttur, tónskálds og á hann því ekki langt að sækja hæfileikana. Hann segir það þó aldrei hafa verið á stefnuskránni að gefa út ljóðabók.
„Ég ætlaði aldrei að gefa út bók af neinu tagi, fannst nóg að þrír aðrir fjölskyldumeðlimir hefðu gefið út minnst eina bók. Ég sagði meira að segja við konuna mína fyrir nokkrum árum að mér finnist sem allir og amma þeirra væru að gefa út ljóðabók og að þessi ljóðskáld væru svo óþolandi upptekin af sjálfum sér. Svo gef ég sjálfur út ljóðabók, sem er að einhverju leyti byggð á sjálfum mér,“ segir Gunnlaugur og hlær.
„En mér líður ótrúlega vel með að hafa gefið þessa bók út. Það hefði verið leiðinlegt að brenna inni með hana og það er gaman að hafa eitthvað áþreifanlegt í höndunum sem maður hefur skapað sjálfur. Verandi söngvari þá er svo erfitt að festa það í áþreifanlegt form sem ég geri,“ segir Gunnlaugur en hann er um þessar mundir í mastersnámi í klassískum söng við Konunglega tónlistarháskólann í Haag.
„Ég get auðvitað tekið upp sönginn minn en sú upptaka er bara vitnisburður um það hvernig ég söng akkúrat þennan dag, svona hérumbil. Þetta er allavega öðruvísi tilfinning heldur en að syngja til dæmis óperu eða tónleika. Þegar síðasti tónninn er sunginn á tónleikunum þá er ekkert eftir fyrir áhorfendur til að rifja upp annað en tilfinningin, sem er vonandi góð. Bókinni má hins vegar alltaf fletta aftur og aftur. Sem ég vona að fólk geri.“
Fúll þegar kennarinn stoppaði hann
Gunnlaugur segist alltaf hafa verið nokkuð hrifin af ljóðum. „Þegar ég var í þriðja bekk var uppáhalds ljóðið mitt Sósusálmurinn eftir Þórberg Þórðarson. Ég kunni það meira að segja utan að og ég held ennþá mikið upp á það. En það eru nokkur önnur ljóð og ljóðabækur sem eru í uppáhaldi. Bókin Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju hafði til dæmis rosalega mikil áhrif á mig þegar hún kom út og það var eiginlega fyrsta ljóðabókin sem ég las spjaldanna á milli.“
„Þegar við áttum að kynna eitt ljóð sem okkur fannst skemmtilegt í íslenskutíma í framhaldsskóla ákvað ég að lesa upp alla bókina hennar Gerðar, því hún er jú eiginlega einn langur ljóðabálkur. Ég var nú dálítið fúll að kennarinn stoppaði mig þegar ég var bara tæplega hálfnaður með bókina,“ segir Gunnlaugur brosandi.
„Sry deyjum öll get over it“
„Upp á síðkastið hef ég verið að kynna mér bandarísk ljóð frá þessari og síðustu öld og þau höfða sterkt til mín. Annars fattaði ég bara um daginn að ég fæ mikinn innblástur frá veggjakroti. Mér finnst mjög gaman að rekast á skemmtilegt veggjakrot. Á veggnum við Hólavallagarð, þar sem ég labba framhjá á hverjum degi þegar ég er heima á Íslandi, er til dæmis skrifað „sry deyjum öll get over it“. Ég verð alltaf svo léttstígur þegar ég les þetta.“
Sem fyrr segir verður útgáfuhófið haldið í Bókakaffinu í Ármúla á morgun, föstudag, en Gunnlaugur flýgur svo aftur út og heldur náminu áfram í Haag. Hann fær því lítið svigrúm til að kynna bókina í jólabókaflóðinu.
„Ég verð því líklegast að biðja einhverja góða vini um að sjá um kynningarmál fyrir bókina mína, lesa upp úr henni og sjá til þess að hún sé alltaf á góðum stöðum í bókabúðum,“ segir Gunnlaugur að lokum.