Ljósakvöld verður í Guðbjargargarði við gamla bæinn í Múlakoti í Fljótshlíð laugardagskvöldið 7. september kl. 19:30. Nafnið er dregið af því að ljós eru kveikt í garðinum og efnt til samkomu til stuðnings endurreisninni í Múlakoti sem nú hefur staðið skipulega í 10 ár.
Vinafélag gamla bæjarins stendur fyrir viðburðinum og býður Björn Bjarnason formaður þess gesti velkomna. Pétur Hrafn Ármannsson arkitekt, starfsmaður Minjastofnunar Íslands, ræðir um verndun Múlakots og Ísólfur Gylfi Pálmason, fyrrv. alþingismaður, stjórnar fjöldasöng með gítarundirleik. Þá verða kaffiveitingar bornar fram í garðinum.
Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti hefur frá snemma árs 2015 stutt Sjálfseignarstofnunina Múlakot sem var stofnuð 8. nóvember 2014 til að tryggja eftir mætti varðveislu menningarminja og minjalandslags í Múlakoti. Þar er um að ræða bæjarhúsin sem risu árin 1897-1946 og innbú þeirra, rústir hesthúss, hlöðu og súrheysturns, málarastofu og verkstæði Ólafs Túbals, listigarð Guðbjargar Þorleifsdóttur og lysthús auk annarra minja sem kunna að tilheyra bæjarkjarnanum.
Nú þegar 10 ár eru frá því að skipulega var hafist handa við varðveislu og endurreisn í Múlakoti hefur tekist að tryggja varanlega varðveislu gömlu húsanna og endurnýja Guðbjargargarð sem á rætur aftur til ársins 1897. Í garðinum hefur verið endurgerð af lysthúsinu. Listamenn sem sóttu Múlakot heim á fyrri hluta síðustu aldar nutu garðsins og hússins.
Í sumar hefur verið unnið að ísetningu glugga í vesturhluta gamla bæjarins og suðurhlið hans verið klædd bárujárni.