„Lofa einlægum og skemmtilegum tónleikum“

Föstudagskvöldið 13. júlí mun Salka Sól ásamt hljómsveit halda tónleika á Hendur í höfn í Þorlákshöfn.

Tónleikarnir hluti af Sumartónleikaröð á Hendur í höfn.

„Það vill svo til að píanóleikarinn í bandinu, Tómas Jónsson, hefur nýlega gerst Þorlákshafnabúi þar sem að konan hans er þaðan, hún Ása Berglind. Mér hefur alltaf þótt mjög gaman að spila fyrir utan borgina og þegar ég frétti af stað í Þorlákshöfn ákváðum við bara að slá til,“ sagði Salka í samtali við sunnlenska.is

Salka segir að lagalistinn á tónleikunum verði ansi fjölbreyttur. „Þetta er samansafn af lögum sem hafa mótað mig sem bæði tónlistarmann og einstakling, allt frá Lou Reed og Janis Joplin til Spice Girls og svo eitthvað eftir mig sjálfa.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Salka – sem er hvað þekktust fyrir að syngja með reggíhljómsveitinni Amabadama – heldur tónleika ein sín liðs. „Við höfum gert það nokkrum sinnum það sem af er sumri. Það er alveg öðruvísi fyrir mig þar sem ég er vön að hafa bæði Steinunni og Gnúsa með mér á sviði, en mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt og ég fæ mikla söngútrás,“ segir Salka en með henni á sviðinu verða verða Guðmundur Óskar á bassa, Þorvaldur Þór Þorvaldsson á trommur og Tómas Jónsson á hljómborð.

„Mér líst rosalega vel á að halda tónleika á þessum stað. Ég hef nú einu sinni áður haldið tónleika í Þorlákshöfn, það var í kirkjunni með kórnum Tónar og Trix sem Ása Berglind stýrir. Ég vona bara að sem flestir láti sjá sig og ég lofa einlægum og skemmtilegum tónleikum með bilað góðum hljóðfæraleikurum,“ segir Salka að lokum.

Facebook-viðburður tónleikana.

Fyrri greinMetþátttaka í sumarlestri
Næsta greinSvekkjandi tap í Eyjum