Fyrstu tónleikarnir af þremur í vortónleikaröð Karlakórs Hreppamanna verða haldnir í Hveragerðiskirkju laugardaginn 13. apríl kl. 16. Í kjölfarið fylgja tónleikar í Guðríðarkirkju í Grafarvogi föstudaginn 19. apríl og lokatónleikar í félagsheimilinu á Flúðum laugardagskvöldið 20. apríl.
Að sögn Bjarna Arnars Hjaltasonar í Borgarási, sem er formaður kórsins, er efnisvalið er af ýmsum toga. „Fyrir hlé er lagavalið fjölbreytt, klassísk karlakóralög en eftir hlé setjum við fókusinn á lög og texta eftir snillinginn Braga Valdimar Skúlason. Allar útsetningar í þeim hluta eru eftir kórstjórann okkar, Atla Guðlaugsson. Einstaklega skemmtileg lög og fjölbreytt sem að eiga vonandi eftir að koma fólki á óvart,“ segir Bjarni.
Synir Atla, þeir Bjarni og Guðlaugur syngja einsöng á tónleikunum, Sigurður Helgi Oddsson leikur undir á píanó og Matthías Stefánsson leikur á fiðlu og banjó.
Dyggir aðdáendur kórsins munu eflaust reka upp stór augu því kórinn kemur fram í nýjum búningum á vortónleikunum í ár. Þar með leggja þeir hinn klassíska þjóðbúning til hliðar sem kórmenn hafa notað í hartnær 25 ár. „Hvort við verðum í þessum búningi í önnur 25 ár verður tíminn að leiða í ljós,“ segir Bjarni að lokum.