Sýningin „Lógó í Listagjánni“ verður opnuð í Listagjánni í Bókasafni Árborgar fimmtudaginn 3. september kl. 17:00. Sýningin samanstendur af 40 lógóum eða merkjum sem Örn Guðnason hefur hannað á yfir þrjátíu ára tímabili.
Elstu lógóin eru frá því um 1980 eða nokkru áður en Örn hóf nám í grafískri hönnun. Stór hluti lógóanna var hannaður fyrir íþrótta- og ungmennafélög en einnig eru á sýningunni mörg lógó sem voru hönnuð fyrir ýmis samtök, fyrirtæki og einstaklinga.
Örn stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981–1985 og útskrifaðist sem grafískur hönnuður úr auglýsingadeild. Hann stundaði einnig framhaldsnám í Suður-Frakklandi 1985–1986. Örn stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og lauk kandítatsprófi 1992.
Örn vann í mörg ár við grafíska hönnun og markaðsmál á nokkrum auglýsingastofum auk þess sem hann starfaði sjálfstætt með eigið fyrirtæki Indígó ehf. Örn fluttist á Selfoss árið 2006 og tók við starfi framkvæmdastjóra Umf. Selfoss. Því starfi gegndi hann til 2013. Frá því í október 2013 hefur Örn starfað sem ritstjóri á Dagskránni á Selfossi.
Sýningin er opin á opnunartíma Bókasafnsins og stendur til 30. september.