Lokatónleikar sumarsins á Kvoslæk

Rut ásamt tónskáldinu John A. Speight og Hirti Páli Eggertssyni stjórnanda. Ljósmynd/Aðsend

Lokaviðburður menningardagskár sumarsins á Kvoslæk í Fljótshlíð verður sunnudaginn 1. september kl. 15.00 þegar Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari leikur einleik með 14 strengjaleikurum undir stjórn Hjartar Páls Eggertssonar.

Frumflutt verður verkið Cantus II sem tónskáldið John A. Speight samdi fyrir Rut. Einnig verður flutt Divertimento nr. 3 eftir W.A. Mozart.

John hefur samið röð verka fyrir sólóhljóðfæri og kammersveit sem hann nefnir Cantus, eða Söngur. Cantus I fyrir óbó og kammersveit frá árinu 2005 og Cantus VI fyrir klarínett, víólu og kammersveit frá 2010 komu út ásamt Næturgala Johns á hljómdisknum Næturgalinn með Kammersveit Reykjavíkur árið 2014. Á tónleikunum nú frumflytur Rut Cantus II fyrir fiðlu sem John samdi fyrir hana árið 2007.

Rut Ingólfsdóttir starfaði í Sinfóníuhljómsveit Íslands 1969-2013. Hennar aðalstarf í 42 ár, 1974-2016, var hins vegar með Kammersveit Reykjavíkur, en Rut var einn af stofnendum sveitarinnar. Við starfslok þar gaf Rut út bók sína Þegar draumarnir rætast. Saga Kammersveitar Reykjavíkur 1974-2016.

Rut kom margoft fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur og hefur haldið einleikstónleika víða um land og erlendis. Hún hefur leikið inn á fjölda geisladiska auk þeirra sem hún lék á með Kammersveit Reykjavíkur. Undanfarin ár hefur hún snúið sér að þýðingu bókmenntaverka úr frönsku.

Hljómsveitarstjórinn og sellóleikarinn Hjörtur Páll Eggertsson lauk nýverið mastersnámi við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Hann hefur komið fram sem sellóleikari á ýmsum kammertónlistarhátíðum í Evrópu, leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Hjörtur hóf stjórnendanám árið 2020 við Malko stjórnenda-akademíuna í Kaupmannahöfn, Hann hefur unnið með BBC Sinfóníuhljómsveit Skotlands, Sinfóníuhljómsveit Árósa, Sinfóníuhljómsveit Álaborgar og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hjörtur stundar nú stjórnendanám hjá Ed Spanjaard við Conservatorium van Amsterdam.

Fyrri greinSkorar á Vegagerðina og ÞG-verk að ljúka samningum um brúarsmíði
Næsta greinSkaftárhlaupi að ljúka