
Síðustu viðburðir glæpasagnamánaðarins Janoir í Bókasafni Árborgar verða nú í vikunni.
Á þriðjudagskvöld kl. 20 verður ægilegur viðburður á bókasafninu á Eyrarbakka þar sem rithöfundurinn Guðmundur Brynjólfsson mætir til að lesa upp úr og segja frá æsispennandi glæpasagnaþríleik sínum, en sögusvið verkanna er á Eyrarbakka og Stokkseyri. Boðið verður upp á sótsvart kaffi og sæta bita.
Lokahóf Janoir verður svo á fimmtudaginnkl. 17 þegar spennusagnahöfundurinn Skúli Sigurðsson heimsækir bókasafnið á Selfossi.
Fyrsta bók Skúla, Stóri bróðir, hlaut íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann og sjónvarpsþáttaröð er í bígerð með Ólafi Darra Ólafssyni í fararbroddi. Líkt og sú fyrsta hafa seinni bækur Skúla hlotið frábæra dóma.