Marsviðburður Upplits ber yfirskriftina „Maður og kona 1967“ og verður haldinn í samstarfi við Ungmennafélagið Hvöt í Félagsheimilinu á Borg í Grímsnesi í kvöld kl. 20.
Leiknar verða hljóðupptökur Böðvars Stefánssonar skólastjóra af völdum köflum úr leikritinu Manni og konu eftir Jón Thoroddsen, sem Ungmennafélagið Hvöt setti á svið árið 1967. Ljósmyndir Böðvars frá uppsetningunni verða til sýnis undir hljóðupptökunum, en það var Sigríður Eiríksdóttir frá Ásgarði sem fór í gegnum upptökurnar og valdi kaflana.
Margir komu að sýningunni á sínum tíma og má þar m.a. nefna þau Reyni í Eyvík, Gunnlaug í Félagsheimillinu, Tryggva á Björk, Helgu í Miðengi, Siggu og Ása í Ásgarði, Pálínu í Kaldárhöfða og Kela á Stærri-Bæ, en öll settu þau svip á leiklistarlíf í Grímsnesi á þessum árum.
Hörður Óli Guðmundsson í Haga hefur umsjón með dagskránni fyrir hönd Hvatar, sem hlaut styrk til verkefnisins frá Menningarráði Suðurlands.
Kaffiveitingar verða í boði ungmennafélagsins. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir!