Magnað myndband frá Jónasi Sig

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson sendi í gær frá sér nýtt myndband og er óhætt að segja að verkið sé veisla fyrir bæði augu og eyru.

Myndbandið er við lagið Höldum áfram, af plötunni Milda hjartað. Það var tekið í Skötubótinni við Þorlákshöfn síðasta haust en um leikstjórn og upptöku sá Bernhard Kristinn.

Það er óhætt að segja að sjón sé sögu ríkari en þeir Jónas og Tómas Jónsson, píanóleikari, draga gamalt píanó niður í fjöru – kannski í áttina til einskis – og spila á það í flæðarmálinu þar til fer að falla að.

Þeim Jónasi og Tómasi varð ekki meint af volkinu enda voru þeir í öruggum höndum björgunarsveitarmanna frá Mannbjörg í Þorlákshöfn við tökurnar.

Fyrri greinAlexander framlengir við Selfoss
Næsta greinTokic með þrennu í seinni hálfleik