Sviðið á Selfossi ætlar að fara alla leið með glæsilegt Mamma Mia partý og lofar ógleymanlegri stemningu þann 16. apríl næstkomandi, daginn fyrir skírdag.
Viðburðir sem þessir hafa slegið í gegn erlendis en um er að ræða sannkallaða veislu fyrir aðdáendur hljómsveitarinnar ABBA.
Linda Björk, framkvæmdastjóri Sviðsins, segir að allt verði gert til að skapa ekta gríska Mamma Mia stemningu.
„Nú er komið að því að draga sumarfötin fram úr geymslunni og krullujárnið! Við höfum fengið með okkur í lið fyrirtækið Tilefni, sem sér um að skreyta salinn þannig að gestir okkar upplifi sig eins og þeir séu mættir til Grikklands í alvöru partý. Söngkonan og skemmtikrafturinn Fríða Hansen sér um að stýra viðburðinum frá a-ö. Þetta verður alvöru veisla,“ segir Linda Björk.
Takmarkaður miðafjöldi
Kvöldið verður troðfullt af skemmtun, þar sem boðið verður upp á PubQuiz með Mamma Mia og ABBA-þema, brúðkaup með aðstoð gesta í anda myndarinnar, dansatriði þar sem gestir taka virkan þátt og singalong, þar sem öll helstu lögin verða tekin með fjöldasöng. Þá verða blómakórónur fyrir alla sem vilja og kokteilar frá Grikklandi í boði Sviðsins.
Miðasala hefst mánudaginn 17. mars klukkan 12:00 á svidid.is, en áhugasamir eru hvattir til að tryggja sér miða tímanlega þar sem aðeins eru 140 miðar í boði.