„Marþræðir“, sumarsýning Byggðasafns Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka, sem opnar föstudaginn 4. maí, verður tileinkuð fullveldisárinu 1918 með nýstárlegu móti.
Sýningin er fullveldisárið með augum listamannsins Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur þar sem sjávargróður og önnur náttúra fyllir rýmið. Marþræðir er samspil textílverka listamanns við safneign og veitir frumlega sýn á söguna. Þótt árið 1918 hafi talist slæmt ár bæði vegna kulda og pestar þá voru landsmenn ekki óvanir slíkum aðstæðum og kunnu að nýta sér gjafir náttúrunnar. Fjörunytjar eru mikilvægasti þráður sýningarinnar og hráefni eins og sjávargróður ásamt ullinni vísa í bjargræði fólks þegar illa áraði.
Ásta Vilhelmína hefur unnið með ólík efni í verkum sínum og oft nýtt sér hráefni úr fjörunni og hafinu. Hún hefur frá árinu 1998 tekið þátt í fjölda tísku- og hönnunarsýninga hérlendis sem erlendis og er ein af þeim sem nú reka verslunina Kirkjuberjatréð. Á síðari árum hefur hún fært list sína mun frekar yfir á svið innsetninga og listasýninga. Hún hefur tekið þátt í ólíkum samstarfsverkefnum m.a. í Suður-Kóreu og Japan. Hennar einstaka þekking á náttúrulegum hráefnum skilar sér í mjög áhugaverðri sumarsýningu.
Allir eru velkomnir á opnun sýningarinnar föstudaginn 4. maí kl. 16 í Húsinu á Eyrabakka. Sýningin er opin daglega, eins og safnið allt, kl. 11 – 18 fram til 30. september.