Listamaður maímánaðar í Gallerý Listaseli á Selfossi er að þessu sinni dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir.
Sigrún er borin og barnfædd í Þórisholti í Mýrdal, dósent við Háskólann á Bifröst og búsett í Laugarási í Biskupstungum.
Íslenska sauðkindin er uppistaðan í hennar listsköpun, sem eru akrýlmálverk með blandaðri tækni á striga, ásamt tilvísun í íslenska náttúru, þá einkum Mýrdalinn, hennar heimasveit. Að sögn Sigrúnar er listsköpunin hluti af rannsóknarvinnu hennar innan skapandi greina, en undanfarið hefur hún í auknum mæli nýtt sér samfélagsmiðla til að koma sér og list sinni á framfæri.
Sýningin mun standa yfir í maímánuði og opnar á sjálfan verkalýðsdaginn, þann 1. maí næstkomandi.
Gallerý Listasel er opið þriðjudaga til laugardags kl. 12:00 – 18:00 og á sunnudögum kl. 12:00 – 17:00.