Næstkomandi laugardag opnar vinnustofan og menningarhúsið BrimRót á Stokkseyri.
„Við erum hópur af skemmtilegu og kreatívu fólki á ströndinni sem hefur alltaf skort stað til að framkvæma allar þær hugmyndir sem okkur dettur í hug,“ segir Guðbjörg Eva Guðbjartsdóttir, ein af aðstandendum BrimRótar, í samtali við sunnlenska.is.
Auk Evu standa þau Alda Rose Cartwright, Myrra Rós Þrastardóttir, Pétur Már Guðmundsson og Sigrún Sigmundsdóttir að rekstri BrimRótar.
Staður sem fólki líður vel að koma á
„Við höfðum verið á höttunum eftir vinnustofu í langan tíma þegar gamla samkomuhúsið á Stokkseyri datt nánast upp í hendurnar á okkur. Þá sáum við tækifæri til að gera eitthvað miklu meira og betra fyrir samfélagið í þágu menningar, sögu og listsköpunar. Að opna stað sem ýtir undir menningararf, list og kúltúr. Staður þar sem fólki líður vel að koma á og fá sér kaffi, spjalla og njóta alls hins góða sem við höfum upp á að bjóða,“ segir Eva.
Sem fyrr segir er BrimRót ný opin vinnustofa og menningarhús, sem fimm frumkvöðlar með mismunandi verkefni reka. „Okkar starfsemi spannar til að mynda listsköpun, bókasölu, silkiþrykk, náttúrulegar sápur sem og aðrar húðvörur, viðarvængi og sjávarskart,“ segir Eva.
„Markmið okkar er að verða menningarmiðja Suðurlands fyrir íbúa og gesti með fjölbreyttri starfsemi, list, sýningum, námskeiðum, tónleikum, sögum, upplestri og öllu því skemmtilega sem okkur dettur í hug – ásamt því að bjóða upp á kaffi og eitthvað með því. BrimRót býður einnig fólki sem vill koma sér á framfæri að leigja rýmið undir sýningar, námskeið, samkomur og svo mætti lengi telja,“ segir Eva.
Fullt af sál og góðri orku
Hópurinn fékk húsnæðið formlega afhent í byrjun október og hefur undirbúningur gengið afar vel að sögn Evu. „Við erum einstaklega heppin með tengslanet og Nytjamarkaðinn á Selfossi og er allt í BrimRót fullt af sál, góðri orku og er endurnýtt á góðan hátt. Við settum okkar svip á rýmið með að mála en annars var allt til alls til að opna stað eins og þennan, sem er að sjálfsögðu rekið sem listfélag en ekki sem kaffihús svo ekki búast við að vera rukkuð fyrir kaffið en gott er að koma með stuðning í krukkuna góðu,“ segir Eva.
„Það má búast við því að gestum líði afar vel að koma inn í rými fullt af gömlum mublum með nýstárlegu ívafi. Við leggum mikið upp úr því að hafa rýmið heimilislegt, mikið af plöntum, með góðum anda og hugljúfri tónlist. Gestum á að líða vel í BrimRót, slaka á, lesa góða bók eða tímarit, spila, fá sér kaffi eða te í rólegheitum og gleyma amstri dagsins ásamt því að fá að kynnast vinnunni okkar,“ segir Eva.
Fyrir alla aldurshópa
Eva segir BrimRót vera fyrir alla. „Við ætlum að leggja mikið upp úr því að hafa allskyns áhugavert fyrir börnin, upp í eldri kynslóðina og fólk með allskonar áhugamál. Okkur þykir hins vegar miður að aðgengi er ekki fyrir alla þar sem brattur stigi er upp í rýmið og brattur stigi er niður á klósettið. Hins vegar er hægt að hjálpast að við að koma fólki upp sem þarf að notast við hjólastól eða á erfitt með gang og hægt að komast á klósett á nærliggjandi stöðum. Við vildum svo innilega að þetta hús hafi verið byggt með tilliti til allra, en það er því miður ekki ætlast til þess af nánast 100 ára gömlu húsi.“
„BrimRót ætlar til að byrja með að hafa opið eins og Gallerýið Gimli sem er staðsett á neðri hæðinni. Frá klukkan 11-14 og frá 17-20. Það má þó nefna að opnunartímar munu breytast og ef það eru kveikt ljós í BrimRót á öðrum tímum, þá er opið. Einnig er hægt að opna fyrir fólki, hópum og áhugasömum hvenær sem er,“ segir Eva.
Fjölbreytt dagskrá á opnunardaginn
„BrimRót opnar laugardaginn 26. október með hugljúfri dagskrá og laufléttum veitingum. Við opnum formlega klukkan 13 með kynningu á starfseminni og loppumarkaði. Klukkan 14 er bókaupplestur úr Kindasögum og Draumadagbók Sæmundar, klukkan 16 eru tónleikar í Knarrarósvita sem er einstök upplifun að koma í og fólk fær tækifæri til að fara alla leið upp í vitann sem er yfirleitt ekki í boði. Myrra Rós og Júlíus Óttar flytja nokkur lög og Veronique og Björn flytja frumsamin tónverk en þau eru öll búsett á Stokkseyri. Við endum dagskránna með tónleikum og gamansögum klukkan 18 með Svavari Knúti. Léttar veitingar í boði allan daginn og allir velkomnir,“ segir Eva að lokum.