Markús spjallar í Listasafninu

Markús Þór Andrésson verður með sýningarstjóraspjall í Listasafni Árnesinga í dag kl. 15 þar sem hann spjallar um sýninguna Tómið – horfin verk Kristins Péturssonar.

Á spjalli sínu um sýninguna beinir Markús sjónum sýningargesta að þeim verkum sem Kristinn Pétursson (1896-1981) vann að síðustu æviárin. Þau eru óvenjuleg og spennandi niðurstaða á viðamiklum og fjölbreyttum ferli, einkum í ljósi þess að listamaðurinn vann þau í einrúmi, án samtals við íslenska samferðarmenn sína og án þess að sýna þau opinberlega. Vitnað er í skrif Kristins um myndlist og fyrir sýninguna var unnið myndband um verk eftir hann sem ekki er lengur að finna.

Markús mun einnig segja frá verkum fjögurra listamanna af yngri kynslóð sem hann fékk til samstarfs, sem eru Hildigunnur Birgisdóttir, Huginn Þór Arason, Sólveig Aðalsteinsdóttir og Unnar Örn. Þau endurspegla forvitni sína um verk Kristins Péturssonar á ólíkan hátt í verkum sem sett eru fram sem eins konar athugasemdir við þungamiðju sýningarinnar.

Kristinn bjó síðustu 41 ár ævi sinnar í Hveragerði og var einnaf frumbýlingunum í „listamannanýlendunni“ Hveragerði.

Gestum gefst tækifæri til þess að spyrja Markús og forvitnast frekar um Kristinn, verk hans og hinna listamannanna.

Sýningin er samstarfsverkefni með Listasafni ASÍ sem á stærsta safn verka eftir Kristinn Pétursson og var svo til öll safneignin fengin á þessa sýningu og ekki leitað annað.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Fyrri greinHátt í tvö þúsund fluttu til útlanda
Næsta greinSöfnuðu kvartmilljón í Sjóðinn góða