Með blýantinn að vopni

Ljósmynd/Aðsend

Hefð hefur skapast fyrir því að nemendur í framhaldsáföngum í myndlist við Fjölbrautaskóla Suðurlands haldi sýningu á verkum sínum í opinberu rými. Nú eru það nemendur úr áfanganum Teikning framhald (MYNL3TK05) sem sýna verk sín í Listagjánni á Bókasafni Árborgar á Selfossi en verkin voru unnin á vorönn 2024. Sýningin kallast Með blýantinn að vopni.

Í áfanganum er unnið eingöngu með blýant og byggt verulega ofan á þekkingu, færni og kunnáttu frá fyrri áfanga. Áhersla var á raunsæja fríhendisteikningu, formskynjun og fjarvíddartækni og unnið markvisst með áferð og andstæður í skyggingum. Nemendur gerðu samanburð og tilraunir með myndbyggingu út frá raunsæi, afstrakt og súrrealisma. Nemendur þurftu að íhuga fjölmarga þætti við gerð hvers verks og skiluðu sínum pælingum í formi greinargerðar í máli og myndum. Fjórir efnisflokkar eru til sýningar: 1) Náttúran nær og fjær, 2) Hlutir og dýr, 3) Andlit og umhverfi og 4) Lokaverkefni.

Ljósmynd/Aðsend

Sýningin verður í gangi til 10. október og opin á opnunartímum bókasafnsins.

Hægt er að skoða fleiri listaverk eftir nemendur FSu og má í því sambandi benda á tæplega 100 m langan vegg við bílastæði skólans. Þennan vegg hafa nemendur myndskreytt reglulega sl. 10 ár og þemað verið bókmenntir, sögur og ævintýri. Í vor gekk stór hluti veggjarins í endurnýjun lífdaga og því óhætt að mæla með göngu meðfram veggnum og ekki síður að hafa ungviði með sér og leika með hugmyndaflugið.

Það er stefna myndlistardeildarinnar að miðla verkum nemenda sem víðast og til þess höfum við vefsíðu á Facebook sem heitir FSu myndlist, nýsköpun og miðlun. Þar má sjá úrval verka og æfinga úr þeim áföngum sem við kennum. Bæði þjónar síðan sem kennsluefni og ekki síður fyrir listunnendur að njóta.

Ljósmynd/Aðsend

Við FSu er gott framboð skapandi námsgreina sem hver um sig bjóða fram fjölmarga ólíka áfanga. Auk myndlistar má nefna leiklist, textílhönnun, fablab, grafíska hönnun og miðlun. Hægt er að taka stúdentspróf af Listalínu en það er ekki krafa að vera á Listalínunni til þess að fara í þessa áfanga og skilar það sér í fjölbreyttum hópi áhugasamra nemenda í skapandi greinar. Við bjóðum áhugasöm að kynna sér málið og slást í hópinn.

Myndlistarkennarar FSu,
Ágústa Ragnarsdóttir og Anna Kristín Valdimarsdóttir

Fyrri greinBæna- og samverustund í Víkurkirkju í kvöld