Megas er meðal þeirra sem koma fram á Kímeruhátíð Bókaútgáfunnar Sæmundar sem haldin er í Mengi, Óðinsgötu 2 í Reykjavík, að kvöldi þriðjudagsins 23. apríl.
Samkoman hefst kl. 20 og er aðgangur ókeypis. Rautt og hvítt meðan birgðir endast.
Á hátíð þessari fagnar bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi útkomu tveggja bóka; Bjargfæri eftir Samantha Schweblin í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar og Dyr opnast eftir Hermann Stefánsson.
Á Kímeruhátíðinni munu Ragnheiður Ólafsdóttir söngkona og Hermann Stefánsson rithöfundur flytja lagið Hafmeyjar og hákarlar áður en Samanta Schweblin les kafla úr bók sinni Bjargfæri (Distanci de Rescate) og Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur les sama texta í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar.
Hermann Stefánsson mun lesa úr kímerubók sinni, Dyr opnast, og að lokum mun Megas stíga á stokk og flytja tvö lög með hljómsveitinni Kímerurnar. Hljómsveitina skipa Ólafur Björn Ólafsson trommur, Hermann Stefánsson bassi, Ragnar Helgi Ólafsson gítar, Ragnheiður Ólafsdóttir bakrödd og Tómas Guðni Eggertsson píanó.
Kynnir er Bjarni Harðarson bókaútgefandi. Fyrir og eftir dagskrá mun Guðjón Ragnar Jónasson menntaskólakennari og agent Sæmundar selja hinar nýju bækur á vildarkjörum.